148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stöðugleikinn birtist m.a. í fjárlagafrumvarpinu þar sem farið er yfir þjóðhagsyfirlit 2017–2020 og fjallað er um neysluverðsvísitölu: 2017 1,8%, 2018 2,9%, 2019 2,9%, 2020 2,6%. Því er spáð að verðbólga verði áfram lítil og þó hefur hún verið undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans í fjögur ár. Ég kalla því eftir frekari skýringu á því hvaða þenslu hv. þingmaður er að tala um.

Ef við tölum um það sem hægt er að gera þegar þensla lætur á sér kræla, þegar verðbólga rýkur upp, þá er margt hægt að gera. Seðlabankinn er líklegur til að breyta vöxtum ef stjórnvöld beita ekki aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu. Það sama á við með öðrum formerkjum á vinnumarkaði. Þegar erfitt er að ná samningum á vinnumarkaði vegna þess að stéttarfélög fara fram á bætt kjör er annaðhvort hægt að hækka launin eða lækka skattana, ekki satt? Það er það sem ríkisstjórnin hefur sagt í stjórnarsáttmála sínum; (Forseti hringir.) að því gefnu að launastefna sú sem samið verður um sé í takti við slíka stefnu munum við beita þeirri aðferð. Hún hefur áður reynst vel, (Forseti hringir.) hún er sanngjörn fyrir launþegana í landinu, þ.e. að skattar (Forseti hringir.) verði lækkaðir á þá.