148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar lagt er upp með efnahagsumræðu er erfitt að gera það, eins og hv. þingmaður segir hér, á tveimur mínútum. En endurskoðun peningastefnunnar stendur yfir og við munum vonandi sjá niðurstöðu þeirrar vinnu innan fárra vikna. Þá umræðu þurfum við að taka hingað inn í þingið þegar að því kemur. Ríkisstjórnin skilar hér fjárlögum með töluvert miklum afgangi og í samræmi við fjármálastefnu sem, þegar horft er til hins opinbera í heild, skilar töluvert miklum afgangi, í raun og veru miklu betri stöðu en flestir aðrir sem við berum okkur gjarnan saman við. Það er alveg sjálfstæð stefna í efnahagsmálum að leggja það á sig að mæta væntingum og kröfum á vinnumarkaði — við höfum átt fjölmarga fundi nú þegar með vinnumarkaðnum — og skapa skilyrði (Forseti hringir.) stöðugleika, lægri vaxta. Það er efnahagsstefna í sjálfu sér og svo mætti lengi halda áfram. Að öðru leyti verð ég bara að vísa í það sem sagt hefur verið í stjórnarsáttmálanum.