148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Breytingin sem ríkisstjórnin hefur boðað varðandi þessi vasksáform horfir fyrst og fremst til þess að gengið hefur styrkst að hluta og að mestu leyti vegna ferðaþjónustunnar. Í öðru lagi eru fyrirtækin nýlega búin að taka á sig töluvert hækkað lífeyrisframlag og síðan hafa launin verið að hækka á undanförnum árum þannig að ástæða er til að hafa talsverðar áhyggjur af samkeppnisstöðu þeirrar greinar.

Síðan er það auðvitað almennt dálítið vandasamt að ætla að feta þá slóð að velja úr í fjölbreyttu atvinnulífi þær greinar sem manni finnst vera æskilegar. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar kemur að framleiðni — auðvitað er langæskilegast að hér byggist upp greinar sem skila afburðaframleiðni og geta þannig greitt hærri laun. Það er hins vegar mitt grundvallarviðhorf til gengismálanna að við eigum að vera með fljótandi gengi og þegar hv. þingmaður kallar eftir veikari krónu er hann að kalla yfir landsmenn alla aukna verðbólgu.