148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þessari túlkun um að þingmenn hafi ekkert um ráðherraval annarra flokka að segja. Þingmenn hafa að sjálfsögðu val um að segja já eða nei. Af þeim kostum er valmöguleikinn nei mun mikilvægari því ef þingmenn hafa ekkert um ráðherraval annarra flokka að segja er verið að segja að þingmenn muni aldrei, ekki undir nokkrum kringumstæðum, samþykkja vantrauststillögu. Þeir hafi jú ekkert um ráðherravalið að segja.

Svo ég leggi hæstv. ráðherra ekki orð í munn langar mig að endurorða fyrri spurningu: Geta þingmenn Framsóknarflokksins ekki undir nokkrum kringumstæðum stutt vantrauststillögu á ráðherra annars flokks? Með öðrum orðum: Geta þingmenn Framsóknarflokksins ekki stutt vantrauststillögu á ráðherra samstarfsflokks og þar með haft áhrif á ráðherraval annars flokks?