148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:38]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að koma inn á nauðsyn raunverulegrar byggðastefnu fyrir Ísland. Staðreyndin er sú, og ég held að við getum öll horfst í augu við það, að fyrri byggðaáætlanir hafa margar hverjar verið einstaklega máttlausar. En ég vona svo sannarlega að það verði breyting á.

Því miður virðist allt of oft sem mál sem snerta landsbyggðina nái ekki í gegnum stofnanir og ráðuneyti, einfaldlega vegna skorts á skilningi ráðuneytisstarfsmanna á aðstæðum utan 101 Reykjavíkur. Þar má t.d. nefna undarlegar ákvarðanir um niðurskurð í tengslum við sjúkraflutninga við utanverðan Eyjafjörð og á Raufarhöfn sem líta, að því er mér virðist, sérstaklega vel út í excel-skjalinu en síður í raunveruleikanum. Mig langar því að spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra. Hvernig líst honum á að unnin yrði heildstæð byggðastefna sem næði í gegnum allar stofnanir ríkisins þannig að þær þyrftu allar að taka tillit til byggðaáhrifa í ákvörðunum sínum?