148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:41]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að nýta tækifærið og nefna áhyggjur mínar af stöðu samgöngumála í landinu og nefni sérstaklega stöðu innanlandsflugsins, sem hæstv. ráðherra kom sannarlega inn á í ræðu sinni áðan.

Ég verð einkum að nefna fréttir sem bárust af fundi Isavia í síðustu viku um að við stæðum í raun frammi fyrir því að loka flugvöllum á næstu misserum ef ekkert breyttist.

Sömuleiðis verður að teljast sorglegt ef fer sem horfir og við glutrum niður tækifærinu til að byggja upp nýja gátt inn í landið, eins og hefur komið fram í fréttum á síðustu dögum. Það þarf t.d. að styrkja Akureyrarflugvöll allverulega með búnaði á borð við aðflugsbúnað og stækka húsnæði. Ég held að þeir sem hafa farið þarna um þegar Super Break-vélarnar eru að koma sjái það ansi skýrt. Svo er það náttúrlega viðhaldið, stækkun flugsvæðis o.fl. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvernig hann ætli að bregðast við ákalli sveitarstjórnar, ferðaþjónustu og Isavia um umbætur. Ætlar hann að bregðast við strax eins og raunverulega er þörf á?