148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ríkisstjórnin hyggst gera úttekt á stöðu þeirra sem minna mega sín í samfélaginu, þeirra sem skilgreindir eru í hlutfallslegri fátækt og bera hreinlega minna úr býtum en ég held að samfélag eins og Ísland, eins ríkt og það nú er, geti verið sátt við. Hæstv. félagsmálaráðherra leiðir þá vinnu. Auðvitað er hugmyndin að fara í samtal við fulltrúa Öryrkjabandalagsins til þess að finna leiðir til að þær skerðingar sem við þekkjum á bótum séu ekki með beinum hætti, króna á móti krónu, eins og við þekkjum í dag. Ein leið til þess er að meta getu fólks til vinnu. En þá er alveg grundvallaratriði að slík hlutastörf séu til. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að ganga á undan með góðu fordæmi. Og auðvitað á að borga eðlileg og mannsæmandi laun fyrir þá vinnu, eins og ég held að við hv. þingmaður séum sammála um.