148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við deilum að mörgu leyti þeirri sýn að mikilvægt sé að horfa heildstætt á þann vanda sem hv. þingmaður fer hér yfir. Fíkniefnavandinn er ekki bara vandamál eða viðfangsefni einhvers einstaklings sem í honum lendir heldur er hann verkefni og viðfangsefni samfélagsins alls.

Mig langar í ljósi umræðunnar að láta það koma fram hér að bæði embætti landlæknis og Lyfjastofnun hafa nú á undanförnum vikum og mánuðum verið að kortleggja það sem hv. þingmaður nefnir hér, sem er notkun ópíóíða og annarra lyfja sem valdið geta ávana og fíkn. Það er gríðarlega mikilvægt að átta sig á hversu mikið það er.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis hefur embættið aukið verulega þungann í eftirliti með ávísunum á ávanabindandi lyf. Embættið vinnur að allnokkrum atriðum. Í fyrsta lagi hefur embættið haft samband bæði formlega og óformlega við fjölda lækna sem fengið hafa bréf með athugasemdum vegna lyfjaávísana. Embættið birti nýlega leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun lyfja þar sem m.a. er unnið út frá nýjum leiðbeiningum annarra þjóða við meðferð krónískra verkja.

Það er augljóst að Ísland er í vandræðum í þessu máli. Við gefum of mikið af þessum lyfjum. Það er hluti af þeim vanda sem hv. þingmaður nefnir hér. Samráðsfundir hafa verið milli lyfjateymis embættis landlæknis og Lyfjastofnunar m.a. vegna sterkra verkjalyfja. Þar eru í bígerð aðgerðir til að sporna enn frekar við frekari ávísunum hárra skammta sterkra verkjalyfja.

Embætti landlæknis skoðar öll dauðsföll þar sem grunur leikur á að rekja megi dauðsfall til lyfjaeitrunar. Ef hinir látnu fá eða hafa fengið ávísað óeðlilega af þessum lyfjum er brugðist við því sérstaklega.

Virðulegur forseti. Ég vildi gera hv. þingmanni sérstaklega grein fyrir því horni (Forseti hringir.) á málinu. En ég er sammála þingmanninum um að við því þarf að bregðast með heildstæðum hætti.