148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að hér er oft um að ræða baráttuna um líf og dauða. Það er jafn mikilvægt fyrir okkur sem höfum áhrif og völd í þessu samfélagi að horfa til heildrænna lausna, að byggja okkar ákvarðanir á sterkum og öruggum grunni, hafa gögn ákvörðunum okkar til stuðnings um leið og við megum engan tíma missa. Það útilokar ekki hvort annað, þ.e. að grípa til ráðstafana fyrir þá sem höllustum fæti standa annars vegar og hins vegar að fara betur yfir þá skráningu sem hér er á ferðinni, hvað liggur að baki á hverjum tíma og halda vel utan um það. Eins og fram kemur í máli hv. þingmanns erum við líka að tala um hvernig við búum að börnunum okkar, hvernig við búum að fólki sem býr við fátækt og félagslega erfiðleika, hvernig við búum til að mynda að föngum og möguleikum þeirra til betrunar og þess að snúa aftur inn í samfélagið, hvernig við búum að geðheilbrigðisþjónustunni í víðasta skilningi, hversu aðgengileg sálfræðiþjónusta er fyrir þá sem sækja þjónustu inn í heilsugæsluna, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur úti um allt land. Það er allt saman sama verkefnið, þ.e. að horfa til bráðavanda einstaklinga en um leið að freista þess að ná utan um samfélagið í heild. Þar veit ég að hv. þingmaður og ég erum samferða.