148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:38]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nákvæmlega það sem mig grunaði, þess vegna fór ég hér upp í andsvar. Ég bað um skýr svör hvort þingmenn Viðreisnar gætu viðurkennt það að í samningi sem hv. þingmaður, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði gert, í búvörusamningi sem skilaði 3 milljörðum í hagræðingu þar sem 2 milljarðar á ári fóru til neytenda og 1 milljarður til bænda, hvort þeir gætu viðurkennt það hér í pontu svo hægt væri að festa það bara á blað að Viðreisn hefði skilið þann samning. Það er nefnilega þannig að í núverandi búvörusamningi voru gerðir sérstakir samningar við unga bændur. Það var líka gert um svæðisbundinn samning. Í tíð minni sem landbúnaðarráðherra var líka gengið frá því, alveg ólíkt því sem kom fram í viðræðunum á Sprengisandi um helgina, að litlu mjólkurbúin gátu keypt mjólk af Mjólkursamsölunni á verði sem þriðji aðili ákvarðaði, nákvæmlega eins og menn eru að tala um. Það er bara búið að gera þetta allt saman. Það á bara að viðurkenna hlutina eins og þeir eru.

Hlutirnir eru þannig að búvörusamningurinn frá 2004, sem varð síðan allt of langur af því að hann var framlengdur nokkrum sinnum, skilaði 3 milljörðum á ári, 2 til neytenda og 1 til bænda. Og það er búið að fara ofan í svæðisbundinn stuðning, í stuðning til ungra bænda. Búið er að taka á því ákvæði í þessum vandræðum sem Mjólkursamsalan kom sér sjálf í með því að ákvarða verð sem þriðji aðili ákvarðaði þar sem allir sátu við sama borð til þess að auka samkeppni á skynsamlegan hátt. Nákvæmlega. Allt búið að gera.

Það væri nú gott einu sinni að menn viðurkenndu hlutina eins og þeir eru en hættu að standa hér og gala um að Framsóknarflokkurinn sé einhver afturhaldsflokkur gegn samkeppni. Það er rangt. Við höfum nákvæmlega unnið á þessum nótum. Og það væri ánægjulegt ef þingmenn Viðreisnar myndu vilja skilja að þetta væri svona og viðurkenndu staðreyndir hér úr þessum ræðustól Alþingis, hæstv. forseti.