148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

skipun dómara við Landsrétt.

[13:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina, sem ég vænti að fá að ræða í lengra og ítarlegra máli fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, vonandi á opnum fundi þar svo öllum megi vera ljóst verklag við þessa tilteknu skipun og jafnframt almennt verklag við skipun dómara og jafnvel embættismanna í stjórnkerfinu.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið, og það er svo sem ekkert nýtt í málinu, að að sjálfsögðu voru mér til aðstoðar ýmsir ráðgjafar, m.a. starfsmenn hæfisnefndarinnar umtöluðu, einnig sérfræðingar í mínu eigin ráðuneyti og öðru ráðuneyti af því að það vildi nú þannig til að ráðuneytisstjóri sem fór með málið var settur á þessum tíma vegna vanhæfis ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu vegna tengsla við einn umsækjanda. Ég leitaði til ýmissa sérfræðinga við mat á því hvernig fara ætti að með framkvæmd í ljósi þess að nú væri í fyrsta sinn verið að vinna eftir nýjum lögum þegar til þess kom að hugsanlega yrði tillögum hæfisnefndarinnar vikið frá. Fyrir því voru engin fordæmi. Lögin sjálf gáfu ráðherra mjög skamman frest, bara tvær vikur til að sinna sinni rannsóknarvinnu. Hæfisnefndin sjálf hafði haft nokkra mánuði til verksins.

Í öðru lagi kváðu lögin líka á um aðkomu Alþingis og er óhjákvæmilegt að líta til þess þáttar þegar kemur að því að túlka skyldu ráðherra til að rannsaka málið. Þetta var í fyrsta sinn sem reyna átti á aðkomu Alþingis og má öllum vera ljóst að sú aðkoma hlaut að hafa eitthvert vægi við vinnslu málsins í heild. Ég fékk álit sérfræðinga. Sem ráðherra ber ég að sjálfsögðu ábyrgð á ákvörðunum sem teknar eru, eins og ráðherra gerir ávallt, hann þarf að gera það, auðvitað eftir eigin hyggjuviti. Ég nefni sem dæmi (Forseti hringir.) sambærilegt mál þar sem lögð var tillaga fyrir þann ráðherra sem hér stendur um að veita dæmdum barnaníðingi uppreist æru, (Forseti hringir.) sem ráðherrann tók ákvörðun um að gera ekki.