148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

afleysingaferja fyrir Herjólf.

[13:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og tek undir að við hæfi er að ræða um Vestmannaeyjar á þessum merka degi vegna þess sem gerðist þar fyrir 45 árum, náttúrlega stórmerkilegur atburður í Íslandssögunni.

Hvað varðar nákvæmlega búnað þessa skips, Bodø, þekki ég einfaldlega ekki. Ég skal leita eftir upplýsingum hjá Vegagerðinni og umboðsaðila eða þeim aðila sem fer með ferjusiglingarnar hvernig skip þetta er. En ég þekki til þess að það var mjög erfitt að fá skip til siglinga hér. Við vorum að leita eftir því þegar Baldur á Breiðafirði fór í slipp að reyna að fá skip, m.a. þetta skip, Bodø, og reyna að fá það aðeins fyrr sem reyndist ekki vera hægt heldur vegna þess að einfaldlega væri erfitt um vik að fá skip til afleysinga á þessum tíma. Ég get því einfaldlega ekki upplýst þingheim núna nákvæmlega hvaða búnaður er í þessu skipi, hvort engar kojur séu, hvað þá hvort ferjan geti ekki tengst landgöngubrúm báðum megin lands. Ég vonast nú til að þeir aðilar sem hafa farið með þessi mál séu ekki að bjóða upp á einhvern afleitan kost, en ég skal koma þeim upplýsingum að sjálfsögðu bæði til þingmannsins og þingheims um það hvernig búnaður á þessu afleysingaskipi er háttað.