148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

eftirlitsskyld lyf.

[14:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og tek undir að þetta er efni í heildstæðari og dýpri umræðu. Vonandi er þetta bara byrjunin. Ástæðan fyrir því að ég er að nálgast þetta er sú að þær aðgerðir sem vísað er í eru mjög mikilvægar sem og sú vinna sem liggur að baki og markmiðið er göfugt. Í fljótu bragði virðist þetta vera leiðin til þess að hindra fjölgun, eða, ef ég má nota það orð, nýliðun, í hópi neytenda þessara lyfja. En það má ekki vera á kostnað þeirra sem fyrir eru illa staddir eða háðir þessum fíkniefnum því veruleiki þeirra má ekki verða harðari, hann er nógu harður fyrir, við það að við erum að reyna að stemma stigu við þessu.

Ég ætla að leyfa mér að nota tækifærið þessar síðustu sekúndur til að hrósa hæstv. ráðherra fyrir þá ákvörðun að opna þessi neyslurými og spurning hvort það verði byrjunin á því að opna fyrir fjölbreyttari úrræði fyrir þessa hópa. En ég hlakka til umræðunnar og mun halda hæstv. ráðherra við efnið í þessum málum.