148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

eftirlitsskyld lyf.

[14:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ef við drögum saman lyfjastefnu Íslands í fáum orðum eða lyfjastefnuna sem yfirleitt er höfð að leiðarljósi í vestrænum ríkjum þá samanstendur hún af tveimur þáttum. Annars vegar þeim að tryggja aðgengi að nauðsynlegum lyfjum og hins vegar þeim að stemma stigu við ofneyslu lyfja. Það er augljóst að flókið er að finna meðalveginn milli þessar tveggja sjónarmiða. Það að hafa öruggt aðgengi að lyfjum má ekki þýða að neysla þeirra sé of mikil. Á sama hátt þegar við stemmum stigu við ofskömmtun megum við ekki koma í veg fyrir að þeir sem þurfa á lyfjunum að halda fái að þeim fullan aðgang.

Ég tek undir ábendingar hv. þingmanns. Ég vona að orðaskipti okkar, þó að þau séu allt of stutt, leiði til þess að hv. þingmaður óski eftir sérstakri umræðu um þetta mál. Ég mun verða við þeirri ósk með gleði.