148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Fyrst er þess að geta í tilefni af ummælum hv. þm. Loga Einarssonar áðan að öllum þingmönnum var ljóst og það var tilkynnt að ef menn vildu fá atkvæðagreiðslu síðasta vor um einstaka landsréttardómara var það heimilt. Ef menn vildu fá atkvæðagreiðslu um einstaka einstaklinga stóð það öllum til boða. Það hefur m.a. verið áréttað í dómsmeðferð vegna þessara mála.

Varðandi það sem var tilefni þess að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom hér upp og fór að ræða fundarstjórn forseta þá hlýt ég eftir að hafa lesið þann texta sem birtist á mbl.is að spyrja mig hvort sú málsmeðferð sem nú á sér stað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé pólitískur skrípaleikur, þjóni ekki þeim tilgangi að leiða neitt í ljós eða rannsaka neitt heldur sé pólitískur hráskinnaleikur af hálfu Pírata, hvor það sé tilgangurinn, hvort ummælin sem þarna er vitnað í séu röng og hvort það sé rétt sem fram hefur komið í t.d. ummælum hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar að hann telji málið fullupplýst (Forseti hringir.) en af pólitískum ástæðum eigi að halda því lifandi. (Gripið fram í.)