148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Viðbrögð dómsmálaráðherra og helsta varðhunds flokksins — nei, fyrirgefið, ég ætla ekki að segja varðhunds heldur varðmanns, mjög öflugs varðmanns, mjög faglegs varðmanns, hv. Birgis Ármannssonar, sem ég hrósa í hástert fyrir að vera góður varðmaður flokksins í þinginu, segja manni strax að þau eru hrædd. En við hvað eru þau hrædd? Þau eru hrædd við að við viljum að þessar upplýsingar komi fram, allar ákvarðanir og verklag ráðherra, að landsmenn fái að sjá það. Það er allt og sumt. Hvers vegna mega landsmenn ekki sjá ákvarðanir og verklag ráðherra við skipan dómara þar sem hún hefur verið dæmd fyrir að brjóta lög? Þegar einhverjar upplýsingar koma fram aukalega eftir hæstaréttardóminn kemur í ljós að ráðherra var varaður við í ráðuneytinu og fór samt sem áður þvert á þetta allt saman, keyrði málið áfram.

Við viljum að þetta sé upplýst. Ég tel að ráðherra þurfi að bera ábyrgð strax, af því að hún var dæmd í Hæstarétti. En það eru ekki allir á sama máli. Fleiri upplýsingar þurfa að koma fram þannig fleiri þingmenn þurfi að taka afstöðu til málsins. Það er það sem við köllum eftir; upplýsingum, gegnsæi og að ráðherra taki ábyrgð á grundvelli þess. (Forseti hringir.) Ef eitthvað bendir svo til þess að ráðherra hafi verið blekktur í ráðuneytinu, og það gæti alveg gerst, verðum við að taka afstöðu til þess. En fáum upplýsingarnar fram svo að almenningur geti séð þær og metum þær síðan, upplýst.