148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé hollt fyrir okkur að átta okkur á því í hvaða tilgangi nefndastarf í þinginu þjónar, og þá sérstaklega starf í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar það hefur eitthvert rannsóknarhlutverk með höndum, væntanlega að leiða fram upplýsingar, kalla fram sjónarmið og þess háttar. Það getur átt rétt á sér og á rétt á sér þegar efasemdir eru um framkvæmd í stjórnsýslunni.

Nú vill hins vegar til í þessu máli að tekist hefur verið á um það fyrir dómstólum hvort embættisfærsla ráðherra hafi verið réttmæt eða ekki. Fram hafa verið leidd sjónarmið, upplýsingar og rök í þeim efnum. Mér er ekki enn þá ljóst eftir hvaða upplýsingum og gögnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að kalla eða hvaða staðreyndir hún ætlar að fá fram sem ekki eru þegar komnar fram í hæstaréttarmálinu. En ummælin í Morgunblaðinu gefa hins vegar tilefni til þess að ætla að ekki sé ætlunin að fá frekari upplýsingar fram í þessu máli, heldur bara (Gripið fram í.) að búa til pólitískan hávaða (Gripið fram í.) og skrípaleik. (Gripið fram í: … öll gögn uppi á borði …) (Gripið fram í.)