148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Hvað varðar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skil ég einfaldlega ekki um hvað málið snýst annað en að við eigum að ætlast til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fylgi eftir sínum störfum og fái allar heimildir til þess, stuðning þingsins. Ég vil minna á að hæstv. forsætisráðherra talaði um það í gær að málið ætti að fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Mér finnst þetta ekkert flókið. Nefndin heldur áfram störfum sínum og við eigum að treysta henni til þess. Við erum búin að velja þingmenn í þá nefnd og þau eiga að hafa allt það svigrúm sem þau þurfa til að fylgja eftir því máli sem hér um ræðir í tengslum við skipun dómara við Landsrétt.

Að því sögðu vil ég einmitt fara líka yfir í annað mál, það er fjármálastefnan. Hvar sem borið er niður í viðtölum við ráðherra ríkisstjórnarinnar eru tvö mál talin mikilvægust á vorþingi, annars vegar kjarasamningar og hins vegar fjármálastefna. Það hlýtur að verða svo að orðið verði við óskum stjórnarandstöðunnar, m.a. um tvöfaldan ræðutíma, bæði í fyrri og seinni umræðu um fjármálastefnu. Þetta er risastórt mál, varðar framtíðarstefnu í ríkisfjármálum okkar. Það er ósköp eðlilegt að forseti þingsins taki tillit til þessara óska.