148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[14:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð varðandi fjármálastefnuna. Eins og kom fram í máli ráðherrans er vissulega verið að reyna að leggja grunninn byggðan á spám og líkönum, eins og gengur með svona stefnur, til fjögurra ára. Þar af leiðandi er ekkert óeðlilegt að ákveðnir fyrirvarar séu á öllu sem þarna er sett fram. Hins vegar kom líka fram í orðum ráðherra sú gagnrýni eða þær athugasemdir sem fjármálaráð hefur haft uppi varðandi fjármálastefnuna.

Í fyrra andsvari langar mig samt að rifja upp athugasemd sem kom frá Reykjavíkurborg fyrir fjármálastefnu 2017–2022 þar sem Reykjavíkurborg gagnrýndi áætlanir varðandi A-hluta sveitarfélaganna; taldi þann hluta illa áætlaðan, að það vantaði inn í töflurnar eða líkönin þann mikla útgjaldaþrýsting sem í það minnsta var á sveitarfélögunum á þeim tíma. Einnig kemur fram hjá Reykjavíkurborg ákveðin gagnrýni, að ekki sé tekið tillit til tekjuvöntunar vegna ónógs fjármagns til sveitarfélaga vegna yfirfærslu verkefna o.s.frv.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í þessu fyrra andsvari hvort í þessari nýju fjármálastefnu sé búið að yfirfara og taka tillit til athugasemda Reykjavíkurborgar, og þá leyfi ég mér að segja áhyggjur sveitarfélaganna, sem maður hefur heyrt af, þ.e. að varðandi fjármálastefnuna sé ekki búið að taka inn þau miklu áhrif sem sveitarfélögin hafa eðlilega á efnahagsmálin og um leið þann mikla þrýsting, sem við þekkjum mörg sem höfum verið í sveitarstjórnarmálum, sem eru alltaf á útgjöld sveitarfélaganna, hvort sem það eru leikskólar eða hvað annað.