148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[14:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samtalið við sveitarfélögin á sér fyrst og fremst stað við sambandið. Það er í sjálfu sér eini vettvangurinn þar sem ríkisstjórn hvers tíma getur náð samtali við einn og sama aðilann um heildarstöðu sveitarstjórnarstigsins. Tekið var eftir þessum ábendingum frá Reykjavíkurborg sem eflaust hefur ætlað sér með því að benda á að talsverður útgjaldaþrýstingur væri til staðar og mögulega hefur eitthvað verið horft til þess að í aðdraganda kosninga mættu menn ekki binda hendur sínar um of. Vissulega er borgin með mjög mikið umfang af heildarumfangi sveitarfélaganna í landinu. Það sem hefur gerst, þvert á það sem þarna var sagt, er að afkoma sveitarstjórnarstigsins hefur batnað svo mikið á svo stuttum tíma að sveitarfélögin eru að leggja meira til heildarafgangsins í þessari áætlun en í þeirri síðustu. Þannig að sú þróun er alveg sérstaklega jákvæð.

Við höfum áður tekið lauslega umræðu um gengi á sveitarstjórnarstiginu almennt og margir þekkja það, sérstaklega í minni sveitarfélögum víða, að það hefur verið mjög mikil áskorun að halda skuldaviðmiðum í lagi og ná endum saman, mæta helstu áherslumálum víða um landið. Svo loksins fór efnahagsábatinn að skila sér í gegnum útsvarið þannig að flestar tekjuspár, a.m.k. margar þori ég að fullyrða, stóðust ekki heldur fóru menn fram úr á tekjuhliðinni, þ.e. meiri vöxtur var á tekjuhliðinni en þeir höfðu séð fyrir. Það hefur skilað sér í betri afkomu, meiri getu til þess að lækka skuldir o.s.frv.