148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Nú er það þannig að eftir nokkra mánuði, eftir 120 til 130 daga, verða sveitarstjórnarkosningar. Búast má við, ekki síst í ljósi þess sem ráðherra segir um það að hlutur sveitarfélaganna hafi aukist í batanum, að það verði freistnivandi hjá sveitarfélögunum í aðdraganda kosninga að boða miklar fjárfestingar eða önnur útgjöld. Þá veltir maður fyrir sér hvaða áhrif það hafi á fjármálastefnuna. Kannski hefur það ekki svo mikil áhrif til lengri tíma litið, en maður veltir því fyrir sér hvort ástæða sé til að endurskoða fjármálastefnuna — ég man ekki hvort það er hægt samkvæmt lögunum — í ljósi þess hvað menn ætla að spreða miklu fyrir kosningar. Ég efast ekki um að þessi blessaða Reykjavíkurborg, sem er nú rekin eins og ég veit ekki hvað, hljóti að lofa miklu, sérstaklega þessari miklu og furðulegu línu sem allir eru að tala um.

Virðulegi forseti. Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem fram kemur í athugasemdum fjármálaráðs. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að fram fari greining á framleiðniáhrifum þeirra innviðafjárfestingar sem fyrirhuguð er til að styðja við hagstjórnina og forgangsröðun verkefna. Við forgangsröðunina er jafnframt mikilvægt að huga að arðsemi.“

Nú hefur ríkisstjórnin boðað mikla innviðafjárfestingu og svo sem óljóst hve mikið gengur eftir. Miðað við þær yfirlýsingar sem hafa verið þá veltir maður fyrir sér hvort farið hafi verið í þá greiningu sem fjármálaráð er hér að velta fyrir sér, hver eru framleiðniáhrifin af innviðafjárfestingunni. Við hljótum að sjá að það er mjög mikilvægt að sú fjárfesting í innviðum sem verður farið í verði ekki eingöngu til þess að búa til þenslu og auka verðbólgu heldur að jafnvægi verði á þessum fjárfestingum og þær leiði til aukinnar tekjuöflunar fyrri ríkissjóðinn. Maður veltir fyrir sér hvort áhyggjur fjármálaráðsins séu eitthvað til þess að við þurfum að fara dýpra ofan í og hvort ráðherrann og ráðuneytið hafi farið ofan í það.