148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja aðeins fyrst örfá orð um hagstjórnina almennt. Hver hefur hún verið undanfarin ár? Við erum að skila afgangi ár eftir ár, fimmta árið í röð. Við höfum afnumið gjaldeyrishöft. Það hefur verið forgangsmál. Við höfum greitt upp mörg hundruð milljarða af skuldum. Við erum með hraðari uppgreiðslu skulda en önnur Evrópuríki. Langt, langt umfram það.

Við höfum greitt rétt um 200 milljarða inn á lífeyrisskuldbindingar og gert A-deildina sjálfbæra. Verðbólga hefur verið í fjögur ár undir viðmiðunarmörkum eins og ég rakti í inngangsorðum mínum. Þetta hefur auðvitað skilað því að matsfyrirtækin hafa hækkað einkunnina á ríkissjóð Íslands. Þetta er einkunnin sem hagstjórnin almennt hefur verið að fá.

Nú erum við að horfa fram á veginn. Það skal ávallt gaumgæft hvert spor inn í framtíðina þegar kemur að þessum málum. En það er engin spurning að við höfum verið að gera vel á undanförnum árum og skilað miklum árangri sem m.a. hefur skilað sér aftur í mjög auknum kaupmætti.

Mig langar aðeins að koma inn á nokkur önnur atriði. Hér var rifjað upp tap bankanna. Sem betur fer var það tap erlendra aðila að uppistöðu til. Það skiptir máli að hafa það með.

Varðandi skattalækkanir: Hv. þingmaður talaði mjög mikið um skattalækkanir eftir kosningarnar 2003 í þinginu sem síðar var talað um að hefðu verið óheppilega tímasettar. Ég held að það sé langt frá því að skattalækkanir á þeim tíma hafi verið meginorsök hrunsins.

Ég tek undir með mönnum sem segja hér í umræðunni og vísa m.a. í fjármálaráðið að gæta verði að spennustigi hagkerfisins þegar skattalækkanir eru ákveðnar. En við gerðum kannski betur í því eða mættum gera meira af því að huga að áhrifum útgjaldaaukningar og þjóðhagslegri hagkvæmni (Forseti hringir.) í hvert sinn sem við bætum við á útgjaldahliðina. Efasemdaraddirnar koma alltaf þegar við tölum um skattalækkanir en það efast aldrei neinn um að öllum krónum sé vel varið á útgjaldahliðinni.