148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að þingmaðurinn fór svo vel yfir álit fjármálaráðs langar mig að koma með ákveðnar vangaveltur um tölur yfir heildarafkomu og þar fram eftir götunum, sem koma fram á forsíðu þingsályktunarinnar, þar sem fjármálaráð veltir fyrir sér af hverju ekki er gefið upp innan ákveðinna marka hvert sé hæsta og lægsta afkomustig sem hið opinbera ætlar sé að ná heldur er sett fram föst tala.

Í framhaldinu velti ég fyrir mér: Fyrst sett er fram föst tala telst eðlilegt að skila ekki afkomu sem er verri en talan. Þá finnst mér augljóst að spyrja: Af hverju telst ekki eðlilegt að skila ekki hærri afkomu en talan segir til um? Ef vel gengur og í raun næst meiri afgangur hjá ríkissjóði en stefnan og fjárlög búast við, af hverju á ríkið ekki að vera á bremsunni til þess að fylgja stefnunni og ná markmiðum varðandi heildarafkomu sem hún setti sér? Það verður ákveðin freistnivandi þegar árar vel og öllu eytt sem fæst aukalega. Kannski eru greiddar niður skuldir og eitthvað svoleiðis, eins og samkvæmt síðustu fjármálastefnu, sem gæti verið þá leið til að stilla afkomuna af, en ég sé ekkert slíkt í þessari stefnu.