148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði hér sem væri áhugavert að koma að. Í fyrsta lagi hef ég áður kvartað undan tvennu hvað varðar framsetningu fjármálastefnunnar, annars vegar því að það vantar yfirlit yfir umfang og langtímaskuldbindingar, og svo það sem ég nefndi síðast þegar ég fór yfir fjármálastefnuna, þ.e. þróun eigna. Það finnst mér áhugavert vegna þess að nú erum við að fara að tala um stofnefnahagsreikninginn kannski seinna í dag, sem gæti hjálpað okkur við fylgjast aðeins með eignaþróuninni.

Í fjármálastefnunni er aðeins fjallað um fjárfestingar og innviðauppbyggingu og hvernig þróun fjárfestinga á að vera þar sem sagt er að það eigi að haldast í hendur við hagsveifluna. Þá velti ég því fyrir mér samhliða því að mikið var talað um innviðauppbyggingu fyrir kosningar, að það eigi í rauninni að halda sama fjárfestingarhlutfalli hins opinbera og á árunum 2010–2016, minnir mig að hafi verið. Við munum sem sagt halda sama fjárfestingarhlutfalli hins opinbera næstu fimm ár og það var í lok hruns. Ef vanþörf var á uppbyggingu á þeim tíma þrátt fyrir fjárfestingarhlutfall hins opinbera þá hlýtur það að vera miklu meira núna þar sem það er meiri fjárfestingarþörf vegna stækkunar hagkerfisins. Þá hljótum við að enda með sömu vandamál, þ.e. að við hugum ekki nægilega vel að innviðauppbyggingunni. Ég velti fyrir mér hvort ég hafi misst af einhverju í stefnunni sem gerir þetta skýrara.