148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skortir einmitt á kostnaðar- og ábatagreiningu, eins og fjármálaráð bendir á. Það er um að gera að fara í það verkefni og eins og fjármálaráðherra sagði er vinna þar í gangi, sem er gott.

Þó að við vitum ekki alveg eignastöðuna höfum við samt fengið þó nokkrar upplýsingar um að það sé uppsöfnuð fjárfestingarþörf. Það væri a.m.k. hægt að fjalla um það í fjármálastefnunni hversu mikið á að vinna á þeirri uppsöfnuðu fjárfestingarþörf og þá hversu mikið hið opinbera ætlar að leggja til þar.

Aðeins að öðru máli sem ég kvartaði undan við síðustu fjármálastefnu og endurtek hér. Mér finnst vanta upplýsingar um næstu skref, þ.e. þegar fjármálastefna er lögð fram á að vera vísbending í fjármálastefnunni á hvaða málefnasvið verður lögð áhersla á í fjármálaáætlun. Hver er gróf stefna stjórnvalda í hinum mismunandi málefnasviðum fyrir næstu fimm ár? Svo í kjölfarið á því ætti að gefa vísbendingar um það í fjármálaáætlun á hvaða málaflokka verði lögð áhersla í fjárlögum sem sé að lokum útfært í fjárlögunum.

Ég kalla eftir upplýsingum um uppsöfnuðu fjárfestingarþörfina og um áhersluatriði, alla vega hvað varðar málefnasvið í fjármálaáætluninni eins og hún mun liggja fyrir seinna í vor.