148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins almennt um fjármálastefnuna þar sem hún á einmitt að fjalla um umfang, þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga. Í fjármálastefnu skal staðfest að stefnan sé samkvæm þeim grunngildum og skilyrðum sem talin eru upp í lögunum. Það á við sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi annars vegar, þ.e. varðandi grunngildin, og svo varðandi heildarjöfnuð, heildarskuldir og skuldahlutfall sem eru þá skilyrðin.

Staðfesta á að þessi stefna sé samkvæmt þessum grunngildum og skilyrðum. En ég ætla að leyfa mér að efast um að það sé nóg að segja og samþykkja bara, eins og stendur í þingsályktuninni um fjármálastefnu, að Alþingi staðfesti að fjármálastefna þessi sé samkvæm þeim grunngildum og skilyrðum sem kveðið er á um í lögum um opinber fjármál. Það er ekki nóg að segja það bara og stimpla það heldur verður að útskýra það. Hlýtur alla vega að þurfa.

En ef við förum í gegnum greinargerðina með þingsályktuninni er talað um þessi grunngildi og skilyrði á eftirfarandi hátt: Um sjálfbærni er sagt að það sé ósjálfbært ef launahækkanir eru umfram framleiðnivöxt. Það þýðir væntanlega að stefna stjórnvalda sé að halda launahækkunum innan þessara framleiðnimarka eða hagvaxtar.

Mér finnst hins vegar vanta að tekið sé tillit til hagræðingar og skilvirkni. Það er bæði hægt að ná meiri framleiðni með því að framleiða meira án hagræðingar og skilvirkni sem og að halda sömu framleiðni en með meiri skilvirkni og hagræðingu og allt þar á milli. Það er augljóslega svigrúm fyrir launahækkanir þó að framleiðni aukist ekki ef skilvirkniaukning er á móti.

Ég er ekki viss um að þetta sé endilega staðfesting á að fjármálastefnan sé sjálfbær.

En það er líka talað um sjálfbæran vöxt. Aðferðin er stöðugleiki í efnahagsmálum. Að hann nái fram einhvers konar sjálfbærni. Þetta eru náttúrlega bara hringrök þar sem eitt grunngildið er notað til að útskýra að annað grunngildi náist. Sem fer bara hring eftir hring. Það verða að koma ytri rök til að staðfesta að um sjálfbærni sé að ræða.

Lækkun skulda eru teknar sem aðgerð í átt að sjálfbærni. Ég get alveg tekið undir það. Fjármálareglum er síðan þakkað fyrir að tryggja sjálfbærni í rekstri sveitarfélaga. Það eru líka hringrök því að fjármálareglurnar eru hluti af þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla. Það er illa útskýrt hvað varðar ósjálfbærnina. En þó einna best af þeim grunngildum sem fjallað er um.

Hvað varðar varfærni er sagt að stefnan sé varfærin í eðli sínu. Ég sakna rökstuðnings fyrir því. Sérstaklega þar sem gerð er varfærnisleg hagspá, eins og ég talaði um áðan, sem er síðan ekki farið eftir í gerð fjármálastefnunnar. Aðeins meira um það seinna.

Um stöðugleikann síðan. Það er 19 sinnum minnst á einhvers konar stöðugleika. Að efnahagsástandið hafi verið stöðugt á undanförnum árum og hversu mikilvægt sé að hafa stöðugleika. Samt er sérstaklega sagt að meginstoðir efnahagskerfisins séu fáar og næmar fyrir ytri skilyrðum. Hvað er gert til að laga það? Miðað við nýsamþykkt fjárlagafrumvarp er fjallað um nákvæmlega sama vandamál með tilliti til skattstofnanna er ekkert gert til að styrkja þessar óstöðugu meginstoðir. Það er hins vegar minnt á hversu fallvaltur efnahagsstöðugleikinn er ef bara smábreyting verður í ferðaþjónustu eða viðskiptajöfnuði. Efnahagsstöðugleikinn byggir nefnilega ekki á aðstæðum sem við sköpuðum heldur svona hvalreka í formi makríls og ferðaþjónustu.

Aðrar efnahagsstoðir okkar eru sjávarútvegur og orka. Sjávarútvegur sem þarf að fá gefins aðgang að auðlindinni og orkuiðnaður sem þarf að selja sig ódýrt til stóriðju. Við búum einfaldlega í landi hvalrekastöðugleika. Þrátt fyrir að minnst sé 19 sinnum á stöðugleika er ekkert útskýrt hvernig stefnan styrkir þessar stoðir og nær þeim stöðugleika sem markmiðið er samkvæmt grunngildunum.

Festan. Þetta er að mínu mati besta grunngildið í fjármálastefnunni og útskýringin er þessi, tilvitnun, með leyfi forseta:

„Framlagning fjármálastefnu leiðir jafnframt til festu …“

Nei. Það að leggja fram fjármálastefnu leiðir ekki til festu. Það að fara eftir fjármálastefnu gerir það hins vegar. Ég á eftir að sjá það gerast. Það hefur ekkert verið rosalega vel gert í íslenskum stjórnmálum að fara eftir því sem fólk segir.

Gagnsæi er síðasta grunngildið og það er auðvitað besta grunngildið. En það er nákvæmlega ekkert útskýrt hvernig fjármálastefnan uppfylli þetta grunngildi. Orðið er notað þrisvar sinnum og þá bara til að vísa í lög um opinber fjármál sem segja að það eigi að vera gagnsæi.

Eins og sjá má á þessari yfirferð er ekkert á bak við setninguna: „Alþingi staðfestir að fjármálastefna þessi sé samkvæm þeim grunngildum og skilyrðum sem kveðið er á um …“

Það er nefnilega ekki nóg að segjast fara eftir lögum, það verður að sýna hvernig sé farið eftir þeim. Einhverjir eru kannski ósammála en þeir verða þá að útskýra af hverju en ekki bara segja: Ég er ósammála.

Álit fjármálaráðs. Hægt er að fjalla um það, fyrst það liggur fyrir, en ég ætla hins vegar að geyma nákvæma umfjöllun um það álit þar til fjármálaráð er búið að kynna það fyrir fjárlaganefnd. Draga má nokkur atriði úr álitinu sem þarf að huga að. Ríkisstjórnin fékk t.d. lítinn tíma til að leggja fram fjármálastefnu. Fjármálaráð fékk líka lítinn tíma til að skila umsögn, bara tvær vikur í kringum jól og áramót, en skilaði þó áliti sínu tímanlega, þann 2. janúar. Ég verð að hrósa fjármálaráði fyrir gríðarlega góða vinnu á svo stuttum tíma. Kannski geta ákveðnir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar lært eitthvað af þeim vinnubrögðum og hverju er hægt að skila af sér á þeim tveimur vikum í kringum hátíðarnar. Þau unnu það meira að segja á tíu virkum dögum. Vel gert.

En að því sögðu er ekki óeðlilegt að gefa samt rýmri umsagnartíma. Þetta er jú fjármálastefna til næstu fimm ára og fjármálaráð er faglegur umsagnaraðili Alþingis. Meira og betur ígrundað ætti að vera betra.

Á þeim stutta tíma vinna fimm meðlimir fjármálaráðs álitið. Þeir sem þekkja til laga um opinber fjármál ættu að muna að meðlimir fjármálaráðs eru einungis þrír en tveir varamenn sinna einnig vinnu við álitsgerðina að fullu. Fjármálaráð hefur vakið athygli á þessu í fjárlaganefnd, að eðlilegt væri að fjölga ráðsmönnum í fimm, en ef ekki vegna þess stutta tíma sem ráðið hefur til umráða þá af faglegum ástæðum.

Aðeins um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Þar er talað um fjárfestingar. Fjárfesting hins opinbera var að meðaltali 2,9% af vergri landsframleiðslu frá árinu 2010 til 2016. Gert er ráð fyrir að hlutfall hennar verði hið sama að jafnaði fram til 2022 þannig að fjárfestingin haldi í við hagvöxtinn. Þetta er nú öll innviðauppbyggingin. Fjárfestingin fylgir bara hagsveiflunni. Ef við erum að koma úr tímabili þar sem innviðauppbygging og viðhald var í lágmarki, eins og hefur komið fram í umræðunni og vísað er til sem ástæðu fyrir þörf á uppbyggingu innviða, hvernig er hægt að ná uppsafnaðri þörf ef bara er haldið í við almenn hagsveifluáhrif sem ein og sér í raun kalla á aukna uppbyggingu? Fjölgun ferðamanna hefur kallað á viðamiklar framkvæmdir og uppbyggingu við ferðamannastaði sem við erum ekki nálægt því að ná að sinna.

Ef viðhaldsþörf er og þörf fyrir uppbyggingu innviða en opinber fjárfesting helst hlutfallslega óbreytt miðað við stærra hagkerfi er augljóst að hið opinbera sinnir ekki neinu umfram það sem það hefur gert á árunum 2010–2016. Ef hins vegar á að fara í uppbyggingu þá, miðað við þessi markmið, hlýtur einkageirinn að eiga að taka það að sér, atvinnuvegurinn.

Þótt ég geri engar athugasemdir við það hvort uppbyggingin sé hjá hinu opinbera eða á vegum einkaaðila geri ég athugasemdir við það að ef hið opinbera þykist ætla að fara í innviðauppbyggingu á þessu tímabili fjármálastefnu, ef breyting verður gerð á þessari áætlun í áttina að auknum umsvifum í fjárfestingum hins opinbera þá væri það í gegnum eigin fjármálastefnu. En ekki er verið að gera það. Ég mun gera athugasemdir við slík áform því að þau færu gegn grunngildum um festu og stöðugleika, að segja eitt en gera annað.

Vinnumarkaðurinn. Spáð er fyrir um hækkun launavísitölu næstu fimm árin. Gangi hagspáin eftir mun uppsöfnuð hækkun launavísitölunnar 2018–2023 vera rúm 33%. Gangi þetta eftir verður það svipuð hækkun og á árunum 2000–2005 sem var 37,6% og á árunum 2001–2006 sem var 38,5%. Réttara sagt var hækkun launavísitölunnar hærri á öllum fimm ára tímabilum á árunum 2000–2016 en spáð hækkun launavísitölu á tímabili fjármálastefnunnar, nema 2008–2013 þegar hækkunin var bara 32,4%. Því verður að spyrja hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að endurtaka 2008–2013 í launaþróun og rétt sleppa við að vera á botninum í launaþróun fimm ára tímabils á þessari öld.

Allt of lítill tími er til að fara yfir þetta. Ég sleppi nokkrum atriðum. Fer kannski í þau í seinni ræðu.

Búsetuþróun og húsnæðismarkaður. Stuttlega er minnst á búsetuþróun og vandamál yngri kynslóðarinnar í því sambandi. Hægt er að giska á að mögulega verði gert eitthvað í þeim málum á tímabili fjármálastefnunnar, en það er bara sagt að þetta sé úrlausnarefni. Það verður að koma með eitthvað haldbært um þetta í fjármálaáætlun og það er ekki langur tími til stefnu hvað það varðar. Miðað við þann skort sem er á húsnæði og þá uppbyggingu sem er í gangi verður ekki séð að við komumst fram úr þeim framboðsvanda sem við stöndum frammi fyrir á næstunni.

Nú er fjallað um lýðfræðilegar breytingar, hversu miklu færri á yngri aldri eru á móti hverjum eldri borgara en áður. Þetta er dæmi um alger mistök í áætlunargerð að sjá þessa þróun ekki fyrir. Bæði hefur hún átt sér stað í löndum í kringum okkur og ætti að vera fyrirsjáanleg með þó nokkuð margra ára fyrirvara, jafnvel áratuga. Þróunin stefnir í áttina að stöðugu fólksfjöldamódeli þar sem fólki er ekki að fjölga umtalsvert eins og á árum áður. Öll félagsleg kerfi þurfa að geta gengið upp í samfélagi þar sem mannfólki fjölgar ekki því það er bara óhjákvæmileg staðreynd að jörðin er takmörkuð auðlind, þótt ekki sé nema bara að stærð. Ef kerfi okkar virka í þannig fólksfjöldamódeli virka þau bara betur ef okkur fjölgar. Það væri bara bónus.

Einnig er stuttlega fjallað um tækniþróun og „veruleg áhrif á þróun atvinnuhátta, vinnumarkaðinn og lífskjör, …“ Ég held að þessi spá vanáætli áhrifin gríðarlega. Án þess að fara út í of mikla framtíðarfræði má geta þess að fólk spáir yfirleitt rangt á sviðum sem búa við veldisvöxt þar sem spárnar ganga alltaf út frá línulegum vexti. Áhrif tækniþróunar munu koma fram í orkuiðnaði, landbúnaði, sjávarútvegi, samgöngum, samskiptum, bara alls staðar. Miklu fyrr en fólk á von á. Áhrifin verða ekki bara svipuð þróun og á fyrri árum. Þær tækniframfarir sem við munum horfast í augu við eru einfaldlega úrelding vatnsaflsvirkjana og ný landbúnaðarbylting sem gersamlega umbreytir því hvernig við yrkjum landið. Það verður engin þörf fyrir að sigla á einhverjum risavöxnum skipum um heimsins höf til að veiða fisk. Áhrifin verða ekki bara nýr, betri, minni og öflugri traktor, þau verða að ekki verður þörf fyrir traktor. Ekki þörf fyrir vatnsaflsvirkjanir sem sprengja þarf eða drekkja landi fyrir. Það mun ekki gerast smám saman heldur miklu hraðar en við búumst við. Vaxtarverkirnir verða gríðarlega miklir ef við undirbúum okkur ekki vel.

Stóra spurningin er nefnilega hvort þær tækniframfarir sem eru á næsta leiti bjargi okkur yfir í það sjálfbæra samfélag sem er nauðsynlegt og sjálfsagt, tímanlega eða þá ekki. Það er algert lykilatriði að við sitjum ekki bara og bíðum eftir sjálfbærum lausnum heldur vinnum markvisst að því að komast á réttan stað fyrr eða seinna. Ísland hefur nefnilega skrifað undir markmið Parísarsamkomulagsins um samdrátt útblásturs og hefur forsætisráðherra einnig gefið út yfirlýsingu um kolefnishlutleysi árið 2040. Þótt það sé góðra gjalda vert hefur spurningum mínum um nákvæmlega hvað sé átt við ekki verið svarað. Er átt við að sá hluti útblásturs sem stefnt er að að draga saman miðað við Parísarsamkomulagið, verði orðinn hlutlaus eða allur útblástur af mannavöldum? Miðað við tölur er nefnilega sá hluti útblásturs sem er undir vegna Parísarsamkomulagsins einungis um fjórðungur af útblæstri Íslendinga af mannavöldum. Stærsti ótaldi hluti losunar er vegna framræsingar mýra, t.d. fyrir landbúnað eða vegagerð. Þessi losun er ekki hluti af því magni sem þarf að minnka samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Það væri heldur ekki hægt að nota endurheimt mýra til að kolefnishlutleysa það útblástursmagn sem samkomulagið gerir ráð fyrir. Það væri ódýr bókhaldsbrella að tvítelja slíkan gjörning. Hún kolefnisjafnar sig bara sjálf, þessi mýri. Það væri eins og að grafa skurð í þeim tilgangi einum að moka í hann aftur og segjast hafa grætt á því. Spurningin liggur í loftinu: Hvað á hæstv. forsætisráðherra við þegar hún segir: Kolefnishlutlaust Ísland árið 2040? Ég hef spurt hæstv. umhverfisráðherra en hann veit ekki neitt. Ef hann veit það ekki, hvernig er hægt að búa til áætlun sem nær settum markmiðum?

Fjármálastefna er lögð fram af ríkisstjórn. Hún er ákveðin staðhæfing um hvaða ramma ríkisstjórnin ætli að vinna eftir á næstu fimm árum. Þetta fyrirkomulag er mjög gott og ber að virða markmið þeirra laga sem gera ríkisstjórninni að vinna samkvæmt þeim grunngildum, skilyrðum og fjármálareglum sem eru settar þar fram. En mig langar til að benda á dálítinn menningargalla sem ég held að skemmi fyrir þessu ferli. Þau markmið sem stefnt er að með afgangi og skuldahlutfalli eru álitin neðri mörk. Mig grunar að það sé menningarlegt hjá okkur að álíta þau ekki efri mörk líka. Að allir stökkvi á tækifærið til að skila meiri afgangi og meiri hagvexti. Og svo framvegis.

Það fer hins vegar gegn grunngildum um stöðugleika og festu, freistingin til að kynda undir bálið til að fá meiri tekjur til að gera meira, til að verða vinsælli, freistingin til að leggja til minna og gera svo meira og slá sér svo á brjóst gengur gegn markmiðum laganna og tilgangi þess að leggja fram fjármálastefnu.