148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum fjármálastefnu sem er afskaplega mikilvægt tæki stjórnvalda til að ná fram hagstjórnarmarkmiðum og pólitískum markmiðum ekki síður því að hvorugt má verða út undan. Stefna að ákveðnu markmiði er nauðsynleg forsenda þess að aðgerðir og ráðstafanir verði markvissar og raunhæfar þegar fjármál hins opinbera eiga í hlut. Er að sjálfsögðu afar brýnt að vel sé vandað til stefnumótunarinnar og fullt tillit tekið til þarfa ríkisbúskaparins um leið og unnið er í þágu samfélags framtíðarinnar.

Eins og önnur stefnumörkun felur fjármálastefna áranna 2018–2022 í sér fyrirheit um aðgerðir á ýmsum sviðum og jafnframt er settur rammi utan um athafnir stjórnvalda sem takmarka þær á ýmsa lund eða beina þeim í ákveðinn farveg. Haldið er fast við skilgreint markmið í lögunum um opinber fjármál hvað varðar lækkun á heildarskuldum hins opinbera niður fyrir 30% af vergri landsframleiðslu. En nú er gert ráð fyrir að það markmið náist í lok árs 2020. Þessi stefnumörkun ber vott um málamiðlun milli þeirra sjónarmiða að hraða eins og fært er niðurgreiðslu opinberra skulda og þess að verja handbæru fé til uppbyggingar á innviðum samfélagsins.

Ekki er ástæða til að líta fram hjá því að á undanförnum árum hafa fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs margoft gagnrýnt dapurt ástand ýmissa mikilvægra innviða og bent á nauðsyn þess að hefja endurreisn þeirra og endurbyggingu.

Það er því fagnaðarefni að sú fjármálastefna sem við fjöllum um ber einmitt vott um stefnubreytingu í þá átt. Ekki stendur annað til en að áfram verði greitt af lánum og höfuðstóll þeirra lækkaður þannig að heildarskuldir komist niður fyrir 30% af vergri landsframleiðslu, eins og ég sagði áðan, og því er lýst yfir í fjármálastefnunni að óreglulegar tekjur sem kunna að falla til á gildistíma hennar verða að sjálfsögðu nýttar til skuldalækkunar og er gert ráð fyrir að fjárinnstreymi af því tagi kunni að nema um 140 milljörðum á tímabilinu.

Ég vil þó taka undir gagnrýni fjármálaráðs þegar kemur að sundurgreiningu á óreglulegum tekjum, þ.e. arðgreiðslum eða eignasölu og öðru slíku. Ég held að við í fjárlaganefnd ættum að kalla eftir nánari greiningu.

Það er ekki síður mikilvægt að byggja samfélagið upp en að greiða niður skuldir enda verður það samfélag sem líður fyrir lasburða og ófullnægjandi innviði smám saman ófært um að standa við skuldbindingar sínar. Fjármálastefnan felur í sér stefnubreytingu hvað þetta varðar.

Fjármálastefnan felur í sér þjóðhagslega nálgun. Við munum ekki gleyma því að sú fjármálaáætlun sem henni fylgir núna á vormánuðum felur í sér ítarlegri útfærslu á markmiðum þeirrar stefnu sem við fjöllum nú um. Þar birtist frekari sundurgreining markmiða um tekjur og gjöld opinberra aðila og þróun þeirra.

Ríkissjóði búnast ágætlega um þessar mundir og þá er lag að styrkja innviði samfélagsins, bæði þá sem verða vegnir og mældir og hina sem eru óefnislegir en felast í margs konar mikilvægri þjónustu við landsmenn á sviði heilbrigðis-, félags- og menntamála. Fyrstu skrefin í þessa átt hafa þegar verið tekin nú á fyrstu vikum eftir stjórnarskiptin og fleiri stærri munu fylgja á eftir.

Enn er skammt liðið frá því að lögin um opinber fjármál tóku gildi. Nokkur reynsla hefur þó fengist af þeirri framkvæmd og gerð fjármálastefnu og eftirfylgni við hana. Breytingin sem varð við innleiðingu laganna var afgerandi og hefur reynt talsvert á stjórnsýsluna og löggjafarvaldið eins og kom einmitt fram í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Eftir því sem lengra er haldið á þeirri braut sem mörkuð var með lögunum um opinber fjármál þróast verklagið og notagildi aðferðafræðinnar sem í lögunum felst kemur betur í ljós. Fjármálaráð hefur þó í álitsgerð sinni um þá fjármálastefnu sem við fjöllum um bent á tiltekna veikleika í forsendum spárinnar og leiðir til að bæta úr þeim, svo sem með því að draga upp sviðsmyndir miðað við mismunandi forsendur. Undir þetta tek ég enda held ég að ljóst sé að gagnsemi fjármálaáætlunarinnar fyrir stjórnvöld og allan almenning aukist ef í henni er gert ráð fyrir fleiri möguleikum en einum því að vitaskuld árar misjafnlega í þjóðarbúskapnum.

Ég tek líka undir þá ábendingu fjármálaráðs að þörf sé á að endurhanna þau líkön sem Seðlabankinn og Hagstofan styðjast við þegar spáð er fyrir um líklega þróun opinberra fjármála því að þessi tæki voru ekkert hönnuð með þetta hlutverk í huga og við þurfum að laga þau að nýju og breyttu hlutverki.

Ég ætla líka, af því að aðeins var rætt um það og hæstv. ráðherra gerði það líka, að taka undir með fjármálaráðinu varðandi hagsveiflu og leiðréttan frumjöfnuð, þ.e. ekki er bara hægt að horfa á frumjöfnuðinn heldur þarf að leiðrétta hann fyrir áhrifum hagsveiflunnar. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum að gera þannig að við höfum skýrari mynd en ella af áhrifum af slíkri stefnu sem hér er til umfjöllunar og er á hverjum tíma. Ég held að það sé aldrei þannig að við höfum of mikið af góðum gögnum.

Staða og horfur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi eru að mörgu leyti ágætar nú um stundir, en vissulega er margt að varast og reynslan segir okkur að snögg umskipti geta orðið í hinu smáa og kvika efnahagskerfi okkar.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru í aðsigi. Þar mun einnig verða leitað niðurstöðu varðandi álagningu opinberra gjalda. Með þeim hætti verður ríkið aðili að því samkomulagi sem gert verður. Gefin hafa verið fyrirheit um að lækka tekjuskatta einstaklinga í neðra skattþrepinu í tengslum við kjarasamningana og enn fremur er stefnt að því að lækka tryggingagjald. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að ríkið leggi sitt af mörkum til að kjarasamningar geti tekist og kjör þeirra sem minnst bera út býtum á vinnumarkaði batni.

Varðandi tryggingagjaldið verð ég að minnast á að það hefur gegnt afar miklu hlutverki gagnvart Fæðingarorlofssjóði sem er fjármagnaður með því að hluta. Það er ekki til hagsbóta fyrir launþega að ganga svo hart að tryggingagjaldinu að fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs verði í uppnámi. Þvert á móti er áríðandi að sá sjóður sé öflugur og geti tekist á við hlutverk sitt eins og honum er ætlað. Við höfum einmitt stefnt að því að hækka greiðslur og lengja fæðingarorlof.

Íslenskt efnahagslíf er sveiflukennt í eðli sínu og því þarf að fara fram með gætni þegar teknar eru ákvarðanir um skattalækkanir rétt eins og þegar skattar eru hækkaðir á ný eða ný opinber gjöld lögð á greiðendur. Gæta þarf þess að skattalækkun verði bundin þeim skilyrðum að hvorki leiði sjálfkrafa af henni verðbólga né ósjálfbær efnahagsþensla.

Í því sambandi ætla ég að víkja að hugmyndum um gistináttagjald, þ.e. um skattamálin, og ráðstöfun þess til sveitarfélaganna. Það er brýnt að styrkja tekjuöflun sveitarfélaganna. Ég held að gistináttagjaldið sé ein af leiðum til þess. Með því móti hljóta þau sveitarfélög tekjustofn, þar sem ferðamennska er mikil, sem getur þá gert þeim kleift að byggja upp innviði sína og takast á við verkefni á þeim vettvangi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að mínu mati að útfæra og eigum að vinna að og talað hefur verið fyrir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Enn er spáð fyrir verulegum hagvexti í íslensku efnahagslífi þótt hann dragist allnokkuð saman frá því sem hann var mestur. Við slíkar aðstæður og þegar áformað er að auka innviðafjárfestingu er mikilvægt að vanda sig til skipulags og vals á verkefnum.

Ég bendi á að allvíða á landinu ríkir ekki slík þensla í efnahagslífi þannig að hætta sé á einhverjum öldugangi eða kollsteypu þótt efnt sé til opinberra framkvæmda. Þetta getur t.d. átt við samgöngumannvirki á borð við vegi, brýr eða hafnir. Stjórnvöld þurfa að hafa hugfast í þessu samhengi að þótt samfélag okkar sé vissulega ein heild þá eru mismunandi aðstæður uppi eftir því hvar borið er niður. Við hljótum því að gera ráð fyrir að auknar opinberar fjárfestingar verði skipulagðar m.a. með tilliti til staðbundinna áhrifa þeirra.

Því er við að bæta í lokin, virðulegi forseti, að fari svo að hagvöxturinn sem knúinn hefur verið áfram af efnahagsþróun síðustu ára dragist saman eins og spár gera ráð fyrir, eða jafnvel meira, myndar það að sjálfsögðu sóknarfæri fyrir opinberar framkvæmdir og uppbyggingu sem ég tel svo sannarlega fulla þörf á.