148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hennar ágætu ræðu. Það sem ég hjó eftir í máli þingmanns var í rauninni tvennt. Mig langar að spyrja út í ákveðna hluti í athugasemdum fjármálaráðs en ætla nú að byrja á að ræða það sem fram kom í ræðu þingmannsins. Ef ég heyrði rétt talaði hv. þingmaður um að skattalækkanir yrðu, ef af verður, skilyrtar. Mig langar að biðja hv. þingmann að segja mér nánar frá hvaða skilyrði er þar átt við. Eru það skilyrði gagnvart vinnumarkaðnum, skilyrði sem ríkisstjórnin setur sér sjálf eða einhvers konar viðmið, eða eru það skilyrði sem taka mið af verðbólguþrýstingi eða einhverju slíku? Við vitum að skattalækkanir geta haft hvata til að þrýsta upp verðbólgu. Vaka einhverjar skattahækkanir fyrir mönnum til að vega upp á móti hugsanlegu verðbólguskoti?

Hitt er að hv. þingmaður sagði að ef hagvöxtur minnkaði væru sóknarfæri í opinberri uppbyggingu. Væntanlega gerir þingmaðurinn ráð fyrir að minnkandi hagvöxtur skapi svigrúm til að fara í opinberar framkvæmdir einmitt vegna minni verðbólguþrýstings eða áhrifa í þá veru. Þá langar mig að vita hvort ekki þurfi að horfa til þess hvernig fjármagna eigi þær opinberu framkvæmdir eða uppbyggingu sem þá yrði farið í. Er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs minnki ekki þrátt fyrir að hagvöxturinn minnki mögulega? Að tekjur haldi áfram að aukast eins og undanfarin ár?