148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, og ég hef meira að segja talað um það í þessari pontu, að stefnan sé óskýr. Ég vil þó segja varðandi það og líkönin að kerfið var ekki undirbúið undir þessa breytingu þó að það hafi tekið mörg ár að semja lögin. Það var bara þannig þrátt fyrir allt. Ég hef talað fyrir því að við ættum að setja á fót stofnun eins og Þjóðhagsstofnun sem býr til alvöru þjóðhagsspár og líkön. Ég held að við þurfum á því að halda en ég veit ekki hvort það er heppilegt að slík stofnun sé í fjármálaráðuneytinu, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi. Það má vel vera að það þurfi að styrkja það starf enn frekar. Fjármálaráð bendir reyndar á að það geti verið heppilegt.

Ég er alveg sammála líka því sem þingmaðurinn segir. Við í Vinstri grænum höfum ekki talað fyrir því að setja atvinnulífið í neina snöru. Við höfum t.d. talað fyrir því að það megi og eigi að lækka auðlindagjöld hjá litlu fyrirtækjunum. Ég held að við séum öll sammála um það. En ég hef líka talað fyrir því að mörg stærri útgerðarfélög geti borgað meira til ríkisins en þau hafa gert. Þá er ég ekki endilega að miða við toppárið fyrir tveimur árum, en ég tel líka að við þurfum að gera þetta nútímalegra. Það er ekki gott að gera miða við einhver ár aftur í tímann.

Það eru fyrirheit um að lækka tryggingagjaldið. Það kemur atvinnulífinu vel. Ég vil hins vegar sjá að Fæðingarorlofssjóður sé fullfjármagnaður. Hann hefur verið fjármagnaður að hluta til með þessu gjaldi. Við leggjum til lengra fæðingarorlof og auknar greiðslur í fæðingarorlofi, (Forseti hringir.) sem styður við ungt barna- og fjölskyldufólk. Ég vil tryggja það. Þetta er tekjustofn þess áður en gjaldið verður lækkað.