148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma örfáum athugasemdum á framfæri. Í fyrsta lagi er fjármálastefnan ekki samin á grundvelli þeirrar þjóðhagsspár sem fyrri fjármálastefna var samin á heldur var horft til nýrrar þjóðhagsspár frá því í nóvember við gerð þessarar fjármálastefnu.

Síðan almennt finnst mér gæta þess talsvert hér í umræðunni að menn líta fram á veginn og horfa til þessarar stefnu og þeirra varnaðarorða sem er að finna í fjármálaráðsálitinu og velta upp sviðsmyndum um að þetta fari nú allt á mun verri veg. Það er varlegt og skynsamlegt að vera varkár við gerð langtímaáætlana en staðan er engu að síður sú að það er bara býsna bjart fram undan. Því er ekki spáð að við séum að missa verðbólguna úr böndum, því er ekki spáð að hér sé hagvaxtarskeiðinu að ljúka. Áfram er spáð fullri atvinnu og viðskiptajöfnuði á næstu árum. Það mætti gjarnan, ef menn vilja fara í þessa umræðu í stóra samhenginu, fara aðeins inn á það hvað við getum gert til að styðja betur við grunnatvinnuvegina í landinu til þess að viðhalda því ástandi og velta upp aðgerðum sem myndu tengjast því en ekki einblína bara á ríkisfjármálin í stóra samhengi hlutanna eða minni háttar skattbreytingar heldur skoða frekar aðgerðir sem geta stutt við áframhaldandi efnahagslegan viðgang í hagkerfinu.

Svo vil ég halda því til haga sem gert hefur verið, fyrst minnst var á skuldir ríkissjóðs, hversu ótrúlegt átak hefur verið ráðist í með því að lækka skuldahlutfallið á örfáum árum úr yfir 90% (Forseti hringir.) niður í það sem stefnir í 30%.