148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra andsvarið. Fyrst að þessum leiðinlegu tæknilegu atriðum. Ég var ekki að vísa til þess að ekki væri unnið út frá nýjustu þjóðhagsspá í fjármálaáætlun heldur að þjóðhagsspáin sem byggt er á metur áhrif síðustu fjármálastefnu við mat á hagþróun áfram, ekki nýrri fjármálastefnu sem komin er. Það var það sem ég átti við. Kannski tæknilegt atriði en að því leytinu til er bara mjög gagnlegt fyrir okkur að vita hvaða áhrif sú breyting sem er í þessari fjármálastefnu hefur til breytinga á þeirri þjóðhagsspá, ef einhver. Ég vænti þess að þau séu einhver.

Þegar kemur að hagstjórninni almennt þá er alveg rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir að auðvitað þarf að horfa til fleiri þátta. Armar hagstjórnar eru fyrst og fremst þrír. Það er peningastefnan, en hún má sín afskaplega lítils ef hinir tveir, þ.e. vinnumarkaðurinn og ríkisfjármálin, ganga ekki í takti við hana. Það hefur verið kjarnavandamálið okkar. Við höfum keyrt á verðbólgumarkmiði í nær tvo áratugi sem vinnumarkaðurinn hefur ekkert sérstaklega unnið eftir, ekki verið í takti við þegar samið hefur verið um kaup og kjör. Það er staðreynd þess máls. Þegar við berum okkur saman við nágrannalönd, t.d. Norðurlöndin, er nokkuð augljóst að við þurfum að læra af því og ríkisfjármálin hafa ekki gert það heldur. Þau hafa verið frekar sveifluhvetjandi en sveifluhamlandi. Það er lykilatriði ef við ætlum að ná árangri í þessu að við náum tökum á því sem til okkar ábyrgðar heyrir, sem eru ríkisfjármálin. Og auðvitað þarf vinnumarkaðurinn að gera sitt í þeim efnum líka.

Ég er ekkert að gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í skuldaniðurgreiðslu, hún hefur verið mjög mikil. En það má ekki heldur gleyma því að þessi hlutföll hafa tilhneigingu til að lækka mjög skarpt þegar landsframleiðslan vex jafn mikið og raun ber vitni. Sú þróun getur auðvitað (Forseti hringir.) snúist við líka. Það sem ég er að benda á er að einmitt af því að hagkerfið okkar er svona sveiflukennt verðum við að nota þessi (Forseti hringir.) góðu ár vel, bæði hvað varðar skuldir ríkissjóðs en ekki síður að greiða niður lífeyrisskuldbindingar, sem eru allverulegar.