148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins áfram um skuldirnar og skuldahlutföllin. Já, við höfum greitt upp mjög verulega beinar ríkisskuldir, dregið úr gjaldeyrisforðanum með uppgjöri á erlendum skuldum, það var mjög ánægjulegt að þær aðstæður skyldu skapast. En við höfum líka greitt upp aðrar skuldir. Þar hafa stöðugleikaframlög skipt miklu en á sama tíma höfum við verið að greiða um 200 milljarða á undanförnum árum inn á lífeyrisskuldbindingar. En ég er sammála hv. þingmanni. Við eigum að halda áfram. Og þá vil ég vekja máls á því að forsenda þess að við náum verulegum viðbótarárangri á þessu sviði er að losa um eignir. Þar hlýtur að vera nærtækast að selja fjármálafyrirtæki sem ríkið er með eignarhlut í upp á mörg hundruð milljarða og ráðstafa til uppgreiðslu á skuldum. Þá gætum við komist enn lengra niður með skuldahlutföllin.