148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. fjármálaráðherra hvað varðar margt það góða sem gert hefur verið og tel raunar að hann og fyrrverandi fjármálaráðherra sem kom úr okkar ágæta flokki, að þeir frændur hafi bara staðið sig alveg ágætlega í þessu hlutverki, að sýna gott aðhald í ríkisfjármálunum og leggja höfuðáherslu á niðurgreiðslu skulda. (SJS: … á undan þeim?) [Hlátur í þingsal.] Jafnvel hæstv. forseti sem á undan þeim kom og glímdi við öllu þrengri búskap og má vel hrósa líka í því samhengi. En ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að þetta er einmitt tímapunkturinn til að losa um eignir ríkissjóðs, ekki hvað síst í fjármálakerfinu, ég held að það sé fordæmalaust hversu miklar eignir ríkissjóður á í fjármálakerfinu, og greiða niður skuldir með.

Ég er hins vegar hræddur um að þar sé ríkisstjórnin nokkuð ósamstiga, þ.e. ég hef ekki heyrt mikla sannfæringu Vinstri grænna fyrir því að selja eða einkavæða ríkisfyrirtæki í því samhengi. Og Framsóknarflokkurinn virðist heldur hafa haft stefnu um að kaupa fleiri banka en að selja.