148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja þingmanninn út í þensluverðbólgu á vinnumarkaði. Þingmaðurinn fór ágætlega yfir hvaða áhrif hann teldi að fjármálastefna í því líki sem við sjáum hana hér geti mögulega haft til lengri framtíðar litið. Þingmaðurinn er reyndar líka nýkominn úr ríkisstjórn þar sem einnig var lögð fram fjármálastefna. Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hver er meginmunurinn á þeirri fjármálastefnu sem þá var lögð fram og þeirri sem nú er lögð fram? Er ekki ár síðan hún var lögð fram, þegar við vorum að skoða hana hér í þinginu? Alla vega er hún ekki mjög gömul. Það er ný þjóðhagsspá síðan í nóvember. Í ljósi þess að fjármálaáætlun 2017–2022 var gerð til fimm ára líkt og þessi hafa menn væntanlega verið að reyna að spá nokkurn veginn rétt. Það er áhugavert að sjá hvað andsvörin eru orðin löng í þessum ræðustól.

Síðan langar mig að spyrja hvort þingmaðurinn hafi áhyggjur af því að fjármálastefnan hafi jákvæð eða neikvæð áhrif inn í þær viðræður sem við sjáum fram undan á vinnumarkaði. Ef það er rétt sem hv. þingmaður les út úr þessu, að þarna sé veruleg eða einhver hætta á þenslu og að verðbólgan fari af stað o.s.frv., þurfum við að hafa áhyggjur af því að það hafi einhver áhrif inn í kjaraviðræðurnar? Er ríkið þá kannski komið með lykilinn að því hvernig viðræðurnar munu þróast á næstu mánuðum?