148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ákveðið hættuspil þegar farið er í kjaraviðræður ef tiltrú aðila t.d. á þætti ríkisstjórnmálanna í efnahagsstjórninni er ekki nægjanleg. Ég ætla ekki að segja neitt um fyrirsjáanleika í niðurstöðu þess. Ég hygg að þó svo að ákveðið ábyrgðarleysi í þessum efnum hafi verið lenskan hingað til sé mjög ríkur vilji til þess hjá öllum aðilum að reyna að ná betri tökum á því. Af hálfu hins opinbera er verið að reyna að bæta úr því með lögum um opinber fjármál og bæta stefnuna. Vinnumarkaðurinn hefur unnið hart að því að breyta vinnubrögðum þar. Það er hins vegar ekki samstaða um þau vinnubrögð enn sem komið er. Það er mikið áhyggjuefni.

Ég held að full ástæða sé til þess að hafa uppi mikil varnaðarorð um hvað gæti gerst ef vinnumarkaðurinn fer aftur út af sporinu því að það er alveg ljóst að við sluppum (Forseti hringir.) fyrir horn. Við fengum miklu kröftugri vöxt í útflutningstekjum í gegnum ferðaþjónustu en nokkurn óraði fyrir í kjölfar síðustu kjarasamninga. Ég held að við getum aldrei vænst þess að vera jafn (Forseti hringir.) heppin aftur.