148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:22]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta og hv. þingmanni andsvarið. Ég veit að forseti er vanur útivistarmaður og veit þar af leiðandi að þegar gengið er á fjall veit maður aldrei hvenær komið er á toppinn fyrr en halla fer undan fæti aftur.

Það er auðvitað vandinn líka í hagkerfinu. Við vitum aldrei hvenær toppi er náð fyrr en við erum farin að finna verulega fyrir kulnun eða samdrætti. Þess vegna hef ég alltaf haft þá lífspeki í þessu að betra er að vera svartsýnn en vona hið besta, fremur en að vera bjartsýnn og ekki búinn undir skakkaföllin þegar þau koma. Í því samhengi er það bara einmitt allt rétt og satt sem hér er sagt um mikilvægi innviðafjárfestinga sem hafa verið sveltar lengi vel. Við erum mjög brennd af að hafa ekki haft fjárhagslega burði eða svigrúm til að sinna innviðafjárfestingum þegar það hefði komið okkur best, sem var í síðustu niðursveiflu. Ríkissjóður var einfaldlega ekki í stakk búinn til að takast á við þær fjárfestingar.

Við erum hins vegar líka um leið að reyna að rétta kúrs svo að við höldum ekki áfram í slíkum vítahring heldur getum einmitt nýtt betur svigrúm í næstu niðursveiflu eða þegar kólnar í hagkerfinu, enda sýna dæmin endalaust að það er miklu betra fyrir ríkissjóð að fjárfesta á slíkum tímum. Við fáum meira fyrir aurinn. Þjóðhagslegur ávinningur fjárfestingarinnar verður enn meiri á slíkum tíma en þegar við erum á útopnu í uppsveiflunni og öll verð í hæstu hæðum. Einhvern meðalveg þurfum við að geta ratað þarna til að geta sinnt nauðsynlegustu innviðafjárfestingum en um leið greitt nægjanlega hratt niður skuldir okkar og skuldbindingar til að hafa fjárhagslegt svigrúm til uppbyggingarinnar þegar kólnar. Bæði nýtum við þar fjármagnið betur en þar kemur þá ríkissjóður inn með rétt hlutverk í hagsveiflunni, að geta örvað hagkerfið á sama tíma (Forseti hringir.) og það þarf á því að halda, ekki þegar það þarf smá ís.