148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að koma að nokkrum málum í upphafsræðunni, ég ætla því aðeins að renna yfir þau atriði.

Í fjármálastefnunni er sagt, með leyfi forseta:

„Sagan sýnir að kaupmáttaraukning hefur ekki alltaf haldist í hendur við launahækkanir hér á landi.“

Fyrst minnst er á þetta væri mjög gott að fá smá tölur með því. Hvenær hélst kaupmáttaraukning ekki í hendur við launahækkanir? Erum við að glíma við sambærilegar ytri aðstæður og þá? Samkvæmt tölum Hagstofunnar féll kaupmáttur launa á árunum 2008–2010 en annars hefur alltaf verið hækkandi kaupmáttur á þessari öld. En þetta er sérstaklega áhugavert með tilliti til þess sem sagt hefur verið hérna áður um launaþróun, sem sagt launavísitöluna, um hækkun launavísitölu. Launavísitalan hefur nefnilega alltaf hækkað á þessu tímabili þrátt fyrir að kaupmáttur hafi lækkað á árunum 2008–2010. Þá er bara spurning hvort kemur á undan, hvernig þetta helst í hendur. Ef við hækkum launin vitum við ekkert um hvert kaupmátturinn fer. En ef kaupmátturinn lækkar, er þá launavísitalan að lækka á móti eða hvað annað? Mér finnst þetta alla vega áhugaverð staðhæfing sem er ekki rökstudd frekar. Miðað við hvernig þetta hefur flakkað fram og til baka á þessari öld þá finnst mér það ekki vera nauðsynlega satt, þó að það geti verið satt, þá þarf að útskýra það frekar. Hérna er líka talað um skilvirkni opinberrar starfsemi og í greinargerð með fjármálastefnu er fjallað um skilvirkni opinberra útgjalda og þar segir, með leyfi forseta:

„Öll útgjöld þarf að endurmeta reglulega.“

Ég vakti athygli á ákveðnu vandamáli í fjármálaumræðunni sem tengist einmitt endurmati útgjalda. Kannski er það bara afleiðing af þeirri hraðsuðu á afgreiðslu fjárlaganna sem hefur verið á þessum tveimur árum sem ég hef upplifað, en ég hef ekki orðið var við neina góða greiningu á útgjaldaramma fjárlagafrumvarpsins sem miðar að einhverju endurmati á útgjöldum. Eini kafli síðasta fjárlagafrumvarps sem fjallaði um þetta að nokkru leyti var sá sem fjallaði um aðhaldskröfuna. Í mörgum tilvikum var aðhaldið útskýrt á þann hátt að það væri tekið af útgjaldasvigrúminu. Og þá er greinilega engin endurskoðun í gangi; við ætlum bara að gera allt eins og vanalega, við ætlum ekki að skoða neitt og við bara gerum minna af nýju dóti. Það var nákvæmlega ekkert lagt í að útskýra hvaða aðhaldsaðgerða hefði verið gripið til í áttina að aukinni hagkvæmni í rekstri. Og hver svo sem ástæðan er fyrir því þá get ég verið sammála um það að endurmeta þurfi útgjöld reglulega, ég sé bara ekki að núverandi eða fyrrverandi stjórnvöld hafi farið eftir þeirri reglu. Sem dæmi má minnast á markmið úr fjármálaáætlun. Í gildandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að hlutfall brottskráðra nemenda úr framhaldsskóla hækki upp í að minnsta kosti 60% árið 2022. Brotthvarf úr námi á líka að lækka niður í 20%, samt á hlutfallslegur tími nemenda í námi að lengjast, þar sem fjögurra ára nám var með meðalnámstíma upp á 4,2 ár en þriggja ára framhaldsskólanám með meðalnámstíma upp á 3,2 ár. Heildartíminn er vissulega styttri, en umframnámstíminn eykst úr 5% í 6,67%. Það er sem sagt markvisst verið að stefna að því að auka þann tíma sem nemendur eru umfram áætlaðan tíma í námi. Markvisst er verið að gera ráð fyrir minni skilvirkni, sem er mjög áhugavert.

Að lokum, aðeins um gengisþróun og utanríkisviðskipti. Í greinargerð með fjármálastefnu er varað við samdrætti eða sveiflum, t.d. í ferðaþjónustu. Vegna þess hversu mikill hluti af hagvexti undanfarinna ára hefur verið drifinn áfram af ferðaþjónustunni verður að spyrja mjög stórra spurninga um hagvaxtarspár ef á sama tíma er verið að gera ráð fyrir samdrætti eða sveiflum í ferðaþjónustu. Hér þyrfti að huga bæði að því hvort áframhaldandi fjölgun verði eða jafnvel stöðnun og hvaða áhrif það hefði á hagvöxt. Jafnframt þyrfti að taka tillit til þess að meðalferðamaðurinn dvelur skemur og eyðir minna en áður þegar gengið var veikara. Þetta tvennt, breytingar í fjölgun ferðamanna og samdráttur í neyslu mun hafa mikil áhrif á hagvöxt komandi ára ef fer eins og spáð er í fjármálaáætlun og núna í stefnu. Það er tilfinnanlegur skortur á sviðsmyndagreiningu hvað þetta varðar. Við fengum einhverjar ónákvæmar upplýsingar, orð hérna, og minnst var á þetta stuttlega á fjárlaganefndarfundi þar sem, minnir mig, talað var eitthvað um að um 125 þúsund ferðamenn væru 1% í hagvexti eða eitthvað því um líkt, fjölgun um það, eitthvað svoleiðis, en það er mjög óþægilegt að hafa þetta bara munnlega. Maður á að fá skriflega greiningu frá ráðuneytinu hvað þetta varðar. Ég kalla því aftur eftir meiri upplýsingum og hlakka til að fjalla um málið í nefndinni.