148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í umræðum forystumanna þingflokkanna á mánudag sagði hv. þm. Logi Einarsson í andsvörum við hv. þm. Óla Björn Kárason, með leyfi forseta:

„Með veiðigjöldin þá viljum við fyrst og fremst að þjóðin fái hærri afgjöld af sameiginlegum auðlindum sínum, hvort sem um er að ræða sjó eða orku eða annað slíkt. Auðvitað getur slíkt leitt til mikillar samþjöppunar. En það eru líka til aðrar leiðir til að halda uppi byggðum í landinu en að þvinga menn til að standa í útgerð og atvinnuháttum sem bera sig kannski ekki lengur.“

Virðulegi forseti. Það eru kaldar kveðjur sem sjómenn og fiskverkafólk fær frá formanni Samfylkingarinnar. Í kjördæmi hans er öflug smábátaútgerð og þar eru líka stærstu útgerðar- og vinnslufyrirtæki landsins. Honum finnst hagræðingin í útgerðinni ekki hafa náð þeim markmiðum Samfylkingarinnar að drepa niður alla einstaklingsútgerð smærri og minni fiskiskipa um land allt með óraunhæfum veiðigjöldum.

Logi bætir við, með leyfi forseta:

„Er ekki allt í lagi þó að eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn“ — takið eftir — „og við leitum í hagkvæmasta reksturinn þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið?“

Er það svo að formaður Samfylkingarinnar sjái ekkert annað við útgerðina en hvað hægt er að kreista úr henni af veiðigjöldum, ella liggi hún bara dauð? Á yfirstandandi fiskveiðiári greiðir smábátaútgerðin fimmfalt veiðigjald, þ.e. 350 millj. kr., sé tekið mið af hagnaði smábáta viðmiðunarárið 2015 sem var 71 millj. kr.

Með þessu er smábátaútgerðin dauð. Í þessu húsi eru allir sammála því að útgerðin greiði veiðigjöld en gjöldin eru komin á það stig að öll einstaklingsútgerð er að sameinast stærri útgerðarfyrirtækjum með alvarlegum afleiðingum víða um landsbyggðina.

Virðulegi forseti. Ég spyr að sjómannasið: Er formanni Samfylkingarinnar bara skítsama um útgerðina á landsbyggðinni?