148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni varðandi kjör öryrkja. Við í þingflokki Viðreisnar erum að fara í svipaða heimsókn og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fór um daginn til Öryrkjabandalagsins þar sem eflaust verður farið yfir mörg brýn mál sem hvíla á herðum öryrkja. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að þetta er eitthvað sem okkur ber skylda til að gera. Ég gæti komið hingað og leikið einhvern leik og sagt: Hérna er ríkisstjórn með ákveðinn meiri hluta, þið skuluð bara sjá um þetta. Það sem ég get lofað hins vegar á þessu stigi er að við í þingflokki Viðreisnar munum styðja ríkisstjórnarflokkana í öllum þeim skrefum sem við þurfum að taka til að styðja við öryrkja. Ég vil hvetja okkur öll til dáða og vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli.

Hitt eru síðan, og það var þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs, samgöngumálin. Ég tek undir það sem hv. þm. Þórunn Egilsdóttir sagði áðan, það þarf að styrkja samgöngukerfið og innviði landsins. Þá megum við ekki gleyma suðvesturhorninu. Það er gjarnan lenskan í þessum sal þegar rætt er um samgöngumál. Nú síðast í hádeginu vorum við þingmenn Suðvesturkjördæmis að fá áskoranir m.a. frá starfsmönnum Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, álversins og fleiri fyrirtækja sem þar starfa vegna ástands Vesturlandsvegar. Það sama gildir þegar við erum að fara út úr höfuðborginni og erum að fara austur yfir. Það eru margir sem þurfa að fara þangað vegna vinnu og það sama gildir þegar fólk þarf að fara í gegnum Hafnarfjörð. Það kostar um 70–80 milljarða að bæta gatnakerfið svo að ástandið verði meira en viðunandi á suðvesturhorninu. Og þá verður ríkisstjórnin að sýna meira á spilin. Ég hef verulegar áhyggjur af því að upplifa það metnaðarleysi sem skín í gegn í málflutningi hæstv. samgönguráðherra þegar kemur að málefnum suðvesturhornsins og uppbyggingu innviða. Við munum halda honum þar við efnið eins og í öðrum málum.