148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[15:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Venjulega er það auðvitað svo að þegar skýrslubeiðnir hafa fengið nægilega marga flutningsmenn hefur þingið ekki sett sig á móti því að þær séu afgreiddar í þinginu. Þetta er þó ekki sjálfvirkt heldur er gert ráð fyrir aðkomu þingsins með atkvæðagreiðslu um þetta. Ég verð að taka undir orð hæstv. fjármálaráðherra um þetta. Mér finnst beiðnin eins og hún er sett fram vera afar víðtæk og ómarkviss, beinast að röngum aðila, þ.e. fjármálaráðherra, sem vissulega er einn þeirra aðila sem málið getur átt við en aðeins einn. Hann er ekki almennur stjórnsýslumálaráðherra sem hefur yfirsýn yfir alla þætti.

Þess ber líka að geta að margt af því sem hér heyrir undir á ekki síður við um þingið. En aðalatriði málsins er kannski það (Forseti hringir.) að ef menn ætla að fara í úttekt og skoðun á hvernig framfylgt hefur verið ýmsum ábendingum í rannsóknarskýrslum undanfarinna ára, sem kann að vera (Forseti hringir.) æskilegt og jákvætt, er nálgunin í þessari beiðni röng. Það þyrfti að forma hana með öðrum og betri hætti.