148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er ánægjulegt að heyra að það standi til. En ég er að hugsa um að snúa þessu bara á hvolf og spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist ekki eðlilegt að við gerum þetta dálítið eins og á hinum Norðurlöndunum og eflum þennan félagslega stöðugleika sem talað var svo mikið um fyrir kosningar, að fólk búi við öryggi þegar frávik verða í lífi þess, þegar eitthvað gerist, að það þurfi ekki að vera á nálum, í staðinn fyrir að vera að tefla þessu saman. Samningar atvinnurekenda og launafólks eru bara einn hlutur. Að sjálfsögðu verður þar að taka mið af því ástandi sem er og hvað hægt er að greiða. En allir félagshyggjusinnaðir stjórnmálamenn á hinum Norðurlöndunum með einhverja sómakennd vilja berjast fyrir því að þetta verði hluti af grunnkerfinu okkar en ekki einhvers konar, já, ég segi bara aftur, skiptimynt í kjarasamningum.