148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, jú, ég vona að ég lifi einhverjar umbætur, en ég talaði um að ég yrði ekki lifandi þegar hinn fullkomni heimur væri orðinn til, enda held ég að það sé heimspekileg þverstæða að svona gallaður maður geti verið hluti af fullkomnum heimi. [Hlátur í þingsal.]

Í stjórnarsáttmálanum segir einmitt að það eigi að skoða það, en í tengslum við kjarasamninga. Það er akkúrat það sem ég er pínulítið skeptískur á og neikvæður út í. Því að mér finnst að ástríðufullir sósíalistar, jafnaðarmenn, félagshyggjufólk og frjálslynt miðjufólk eigi að vilja og vilji búa til grunnkerfi sem ekki er skiptimynt þegar kemur að því að ákveða hvort maður eigi að hafa 100 kall eða 150 kall á tímann. Það verði jafnvel til þess að maður sættir sig bara við 120 kall af því að ríkið kemur með einhvern pakka sem ætti að vera sjálfsagður. Það er það sem ég hef áhyggjur af.

Mér hefði fundist að metnaðarfullur vinstri flokkur í forsæti hefði átt að setja það sem skilyrði fyrir þátttöku í stjórnarsamstarfi að við færum í það að afla tekna til þess að hafa hærri barnabætur, hærri vaxtabætur, meiri húsnæðisstuðning og umfram allt fæðingarorlof í 12 mánuði sem skiptist fimm mánuði, fimm mánuði og tvo valkvæða.