148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að leggja áherslu á að þetta er ákaflega jákvætt mál sem þingflokkur Samfylkingarinnar og hv. þm. Logi Einarsson mæla fyrir.

Það er alveg ljóst að horfa þarf til mjög margra þátta þegar kemur að fæðingarorlofi: Brúun fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða, hagsmunir barns, réttur barns til samvista við foreldra o.s.frv. Ég held að mikilvægt sé að sett hafi verið fram mjög veigamikil rök t.d. varðandi dagvistunarúrræði frá unga aldri; hvað er barninu fyrir bestu, hver er réttur barnsins o.fl. Það eru allt mjög veigamikil rök.

Ég ætla að leyfa mér, og kemur kannski ekki á óvart, að nálgast málið út frá jafnréttisvinklinum. Fæðingarorlofskerfið hefur verið nokkuð gott í alþjóðlegum samanburði. En það má alltaf gera gott betra. Það er og hefur verið hornsteinn í jafnrétti á vinnumarkaði. Það sem skiptir máli í þessu er að við þurfum að horfa á nokkra lykilþætti. Einn er lengd fæðingarorlofsins. Sú tillaga sem byggir á starfshópi sem hv. fyrrverandi alþingismaður og þá félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttir, setti á fót er skynsamleg nálgun. Mætti með einföldum hætti segja að þetta væri lenging á fæðingarorlofi karla, þ.e. 5+5+2. Það er kannski fyrst og fremst verið að lengja fæðingarorlof feðra eða rétt þeirra til fæðingarorlofs því að raunin hefur verið sú að í 3+3+3 reglunni er það yfirgnæfandi meiri hluti mæðra sem nýtir viðbótarréttinn. Meðaltalið er, held ég, sex mánuðir á móti vel tæplega þremur mánuðum feðra. Því miður hefur fæðingarorlofstaka feðra farið mjög ört fallandi á undanförnum árum. Þess vegna held ég að þessi nálgun, 5+5+2, sé skynsamleg. Við í þingflokki Viðreisnar horfum mjög með jákvæðum huga til þess máls.

Það þarf hins vegar að horfa til fleiri þátta. Við verðum að nálgast þetta dálítið heildstætt. Við þurfum að spyrja okkur: Af hverju er fæðingarorlofstaka feðra að falla svo skarpt sem raun ber vitni? Þar er auðvitað, eins og kom fram í máli hv. þm. Loga Einarssonar, eitt vandamál, þ.e. þær hámarksgreiðslur sem hafa verið settar á fæðingarorlof. Staðreyndin er enn þá sú að meðan við erum með jafn mikinn kynbundinn launamun og raun ber vitni, ekki bara hinn óútskýrða launamun heldur einnig þá staðreynd að karlar eru að meðaltali með 15–20% hærri laun heilt yfir en konur, að það ýtir körlum frá töku fæðingarorlofs. Og ýtir þessum sameiginlega rétti frekar yfir á móður en föður.

Þess vegna verður líka að huga að því að hækka hámarksgreiðslur. Þær eru í dag að ég hygg 520 þús. kr. eftir hækkun um síðustu áramót. Ef við horfum til þess hvernig þetta kerfi var fyrir hrun þyrfti þetta þak sjálfsagt að liggja á bilinu 800–900 þús. kr. hið minnsta til að hafa fylgt launaþróun eftir. Jafnvel heldur hærra en það.

Það er auðvitað kostnaður líka, sem felst í því að rétta fæðingarorlofskerfið af þannig að það virki sem það jafnréttistæki sem það var hugsað til að vera upphaflega. Að foreldrar nýti báðir rétt sinn til fæðingarorlofs og sú nýting verði ekki jafn kynbundin og raunin hefur verið. Á þennan þátt þurfum við líka að horfa. Og svo er það þessi brúun fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða. Enn og aftur kýs ég að horfa á þetta svolítið frá jafnréttisvinklinum en virði auðvitað hin sjónarmiðin sem tala um mikilvægi þess að börn geti verið eins lengi með foreldrum sínum og kostur er. Kannski liggur lykillinn í þessu líka að þetta verði val foreldra, að foreldrar fái aukinn sveigjanleika og ráði því á endanum sjálfir hversu hratt þeir snúa aftur til vinnu, en það séu þá til dagvistunarúrræði til að taka við börnum þegar foreldrar þurfa á þeim úrræðum að halda.

Við vitum að veruleikinn í dag er sá að foreldrar snúa aftur til vinnu eftir kannski 6–12 mánaða sameiginlegt fæðingarorlof. Raunin er sú í praktíkinni að fólk er mjög gjarnan að reyna að drýgja fæðingarorlofið með því að taka hlutaorlof og þess háttar í núverandi fyrirkomulagi. En við verðum að horfa á dagvistunarúrræðin þarna líka. Ég held að við hljótum að þurfa sameiginlega að horfa til þess að dagvistun verði lögbundið úrræði sveitarfélaga frá skilgreindum aldri, t.d. 12 mánaða aldri. Við sættum okkur ekki við að upphaf grunnskólagöngu sé með einhverjum hætti valkvætt fyrir sveitarfélög eftir því hvenær þau treysta sér til að skaffa það úrræði sem slíkt. Grunnskólaganga hefst einfaldlega við sex ára aldur. Við eigum að horfa til dagvistunarúrræða með sama hætti, að foreldrar og börn eigi rétt til dagvistunar frá tilteknum aldri. Þar með er ekki sagt að það verði allt saman nýtt frá þeim aldri en að rétturinn sé til staðar.

Við þurfum þá að horfa til þess að þarna sé jafnvel tímabil, 6–12 mánaða aldurinn, sem þurfi að horfa til líka, sérstaklega varðandi sveigjanleika og góð dagvistunar- eða dagforeldraúrræði á því tímabili, því að fjöldi foreldra þarf bara á því að halda, en verður af einhverjum ástæðum að snúa aftur til vinnu.

Þetta þrennt þurfum við að hafa í huga; lengd fæðingarorlofsins, hvernig við tryggjum dagvistunarúrræðin frá því að fæðingarorlofi lýkur og ekki síður hvernig við endurreisum fæðingarorlofskerfið.

Þess vegna þykir mér miður að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra sé farinn því að mig langar aðeins að hnýta í það sem þar hefur verið gert. Mér þótti hann tala heldur digurbarkalega um hvernig þetta kerfi hefur verið þróað. Það er auðvitað rétt að núverandi fæðingarorlofskerfi var komið á í ráðherratíð Páls Péturssonar, en það var á grundvelli kjarasamninga á vinnumarkaði. Það var í raun vinnumarkaðurinn sem sammæltist um það, bæði atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin, að hækka tryggingagjald um tiltekna prósentu til að fjármagna nýtt fæðingarorlofskerfi. Þetta var að frumkvæði vinnumarkaðarins og kannski harla óvenjulegt að vinnumarkaðurinn næði saman um að leggja auknar álögur á atvinnulífið í landinu til að fjármagna gott fæðingarorlofskerfi. Um þetta hefur verið víðtæk sátt á vinnumarkaði.

Vandinn er líka sá að þrátt fyrir mjög góða vinnu Eyglóar Harðardóttur, fyrrverandi félagsmálaráðherra, m.a. í þeirri skýrslu sem liggur til grundvallar þeim tillögum sem hér er verið að ræða, er það líka svo að þetta sama tryggingagjald var nærri helmingað. Það fjármagn sem veitt er til Fæðingarorlofssjóðs. Þar af leiðandi er alveg ljóst að þegar við ætlum að reyna að bæta núverandi kerfi komum við strax að fyrstu hindrun sem er að fjármagnið rennur ekki lengur í Fæðingarorlofssjóð sem þarf til til að geta fjármagnað hvort heldur sem er hækkun fæðingarorlofsgreiðslna eða lengingu fæðingarorlofsins sjálfs.

Þetta þurfum við að lagfæra ef við ætlum að geta gert þetta af sæmilegum metnaði. Ef ég man þessar tölur rétt fær Fæðingarorlofssjóður um það bil 0,65% skilgreinds tryggingagjalds í dag en var tæplega 1,3%. Þær tillögur sem starfshópurinn lagði til voru kostnaðarmetnar einhvers staðar á bilinu 1,1–1,2%. Það á í sjálfu sér, með því að endurreisa þá fjármögnun, að vera svigrúm fyrir lengingunni en mun sjálfsagt reyna eitthvað frekar á að hækka hámarksgreiðslurnar líka.

Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli þegar við tölum um hvernig við getum endurreist og endurmótað fæðingarorlofskerfið, að við tryggjum fjármögnun þess og horfum til þeirra þriggja þátta sem ég nefndi áðan.

Við megum aldrei gleyma því — og ég endurtek enn og aftur að ég virði fullkomlega hitt sjónarmiðið varðandi mikilvægi réttinda barns til samvista við foreldra eins lengi og kostur er — að við verðum líka að skapa sveigjanleika fyrir foreldra. Sumir eru einfaldlega ekki í stöðu til að vera svo lengi heima. Og sú grunnhugsun sem að baki fæðingarorlofinu ríkir, sem er að tryggja jafnvægi milli foreldra um fæðingarorlofstöku, og ekki síst þá einföldu staðreynd að fjölskylduábyrgðin, jafnvel enn í dag, liggur í miklu ríkari mæli hjá mæðrum en feðrum og hefur þar af leiðandi verið konum miklu meiri fjötur um fót varðandi barneignir og góðan starfsferil eða starfsframa á sama tíma. Það er það sem við verðum að horfa til þegar við stærum okkur af árangri á heimsmælikvarða í jafnréttismálum, að þetta kerfi er einn af hornsteinum þess árangurs. Við verðum að sýna metnað til að þróa það áfram en huga líka vel að því að það sé ekki holað að innan, t.d. með því að skerða svona hámarksgreiðslurnar eins og gert hefur verið. Ég legg ekki síður mikla áherslu á það. Að því sögðu, að þó að vissulega eigi að horfa á hlutina heildstætt má líka taka skrefin í áföngum. Og þetta er gott skref.