148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt, það eru göt í núverandi kerfi. En það þarf líka að horfa til þess að fæðingarorlofskerfið eins og það var hannað á sínum tíma, að frumkvæði vinnumarkaðarins, er ákveðið vinnumarkaðsúrræði, ætlað til þess númer eitt, tvö og þrjú að bæta fólki tekjumissi. Það er auðvitað rétt að sumir foreldrar, sérstaklega ungir foreldrar sem eru ekki á vinnumarkaði eða að mjög takmörkuðu leyti, njóta ekki sambærilegra greiðslna út úr þessu kerfi og fólk sem kemur úr fullri vinnu. Það nýtur ekki sambærilegrar verndar eða gólfs.

Reyndar var ein af hugmyndum þessa starfshóps sem tillögurnar byggja á að hafa einmitt gólf í greiðslunum, þ.e. að greiðslur að upphæð 300 þús. kr. ef ég man rétt væru ekki skertar. Við verðum að hafa það í huga þegar talað er um hámarksfjárhæðirnar að það er alltaf talað um 80% af launum, þó að hámarki tiltekin fjárhæð. Ég held að það séu tillögur sem megi gjarnan skoða.

Varðandi þá spurningu hvort við útvíkkum kerfið og með hvaða hætti sé rétt að gera það þá þurfum við að horfa til þessara gata sem eru í kerfinu í dag gagnvart tekjulága hópnum. Það má t.d. færa rök fyrir því að sá hópur fari ekki á vinnumarkaðinn fyrr en síðar vegna fæðingarorlofstöku og getur auðvitað orðið fyrir verulegum kostnaði, eðlilega, í þessu samhengi.

Þar held ég að stjórnvöld verði að horfa til sinnar ábyrgðar. Fæðingarorlofskerfinu sjálfu var ætlað að vera fjármagnað af vinnumarkaðnum með tryggingagjaldi, það væri vinnumarkaðstengt úrræði til að bæta tekjumissi á vinnumarkaði. Hitt er í raun og veru á beina ábyrgð ríkissjóðs, hvernig við viljum tengja afkomutryggingu tekjulágs hóps við þau réttindi sem eru í fæðingarorlofskerfinu í dag.