148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Í tillögu þessari er lagt til að kortlagðar verði leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum. Sú upphæð er hugsuð sem grunnframfærsla til að tryggja þau efnahagslegu og félagslegu réttindi sem Ísland er samningsbundið til að tryggja samkvæmt alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Skilyrðislaus grunnframfærsla er einnig þekkt sem borgaralaun.

Grunnhugtökin sem styðja við hugmyndafræðina á bak við borgaralaun eru frelsi og jafnrétti, skilvirkni og samstaða, jörðin sem sameiginleg eign allra jarðarbúa, jöfn hlutdeild sameiginlegs ávinnings af tækniframförum, sveigjanleiki á vinnumarkaði og reisn hinna fátæku, baráttan gegn atvinnuleysi og ómannúðlegum vinnuskilyrðum, baráttan gegn landsbyggðarflótta og ójöfnuði á milli sveitarfélaga, efling fullorðinsfræðslu og sjálfstæði gagnvart vinnuveitanda og maka.

Einn helsti talsmaður borgaralauna í dag er heimspekingurinn Philippe Van Parijs. Hann leggur sérstaka áherslu á það sem hann kallar „raunverulegt frelsi“. Það snúist ekki einungis um jöfn réttindi heldur einnig jöfn tækifæri og þar sem ólíkar aðstæður hafa áhrif á tækifæri einstaklinga til að fullnýta réttindi sín megi færa rök fyrir því að án jafnra tækifæra byggjum við í raun við eins konar sýndarfrelsi. Van Parijs telur borgaralaun færa okkur nær raunverulegu jafnrétti með jöfnum tækifærum fyrir alla óháð samfélags- og efnahagsstöðu.

Hugmyndin að skilyrðislausri grunnframfærslu á sér langa sögu innan heimspekinnar og hagfræðinnar og hafa talsmenn hugmyndarinnar verið margir og koma úr mismunandi áttum. Hugsuðir á borð við Thomas Paine, Bertrand Russel, Friedrich Hayek, Milton Friedman og Martin Luther King hafa léð hugmyndinni rödd sína.

Það er áhugavert að segja frá því að tilraunir á borgaralaunum hafa verið gerðar á nokkrum stöðum í heiminum í gegnum söguna. Til dæmis voru í Norður-Ameríku á árunum 1968–1980 gerðar fimm mismunandi tilraunir á því sem kallaðist „Guaranteed Annual Income“, eða GAI, sem er tilbrigði af skilyrðislausri grunnframfærslu. Tilgangur tilraunanna var aðallega sá að rannsaka áhrif GAI á vinnumarkaðinn, því að á þeim tíma hafði fólk áhyggjur af því að borgaralaun yrðu letjandi á fólk. Niðurstöður þessara mismunandi tilrauna þóttu koma á óvart þar sem lítil áhrif virtust vera á vinnumarkaðinn en töluverð áhrif voru á líkamlega og andlega heilsu fólks og tækifæri þess til menntunar. Þeir sem hættu að vinna eða minnkuðu vinnutíma voru aðallega foreldrar sem kusu að verja meiri tíma í heimilið og börnin og ungt fólk sem kaus að mennta sig frekar og seinkaði þannig komu sinni á vinnumarkaðinn. Niðurstöður tilrauna sýndu m.a. bættan árangur barna í grunnskólaprófum, verulega minnkun brottfalls barna úr skóla og mikla aukningu á endurmenntun fullorðinna. Aðrar niðurstöður sýndu jákvæð áhrif á fæðingarþyngd í þeim hópum sem voru í mestri áhættu. Í einni frægustu tilrauninni, í Manitoba í Kanada, kom í ljós mikil fækkun sjúkrahúsinnlagna og þá sérstaklega innlagna vegna slysa, meiðsla og geðsjúkdóma. Reiknaður sparnaður í heilbrigðiskerfinu á þeim fimm árum sem rannsóknin stóð yfir var 8,5%.

Á síðustu árum hefur umræðan um borgaralaun stigmagnast, sérstaklega í tengslum við vaxandi misskiptingu auðs í heiminum og tækniframfarir. Nú í byrjun árs 2018 hefur um 12 tilraunum annaðhvort þegar verið hrint í framkvæmd eða komið á skipulagsstigið í borgum og löndum víðs vegar um heiminn. Útgáfum að skilyrðislausri grunnframfærslu hefur verið ýtt úr vör í Kenía, Finnlandi, Kanada, Kaliforníu, og fleiri munu bráðlega bætast við í Úganda, á Spáni, í Skotlandi, Indlandi og Hollandi. Tilraunin í Ontario í Kanada gengur út á að tryggja að 2.500 manns nái grunnframfærsluviðmiðum í Kanada óháð því hvort fólk vinni eða ekki. Finnska tilraunin greiðir 2.000 atvinnulausum einstaklingum 560 evrur á mánuði skilyrðislaust í tvö ár. Tilraunir í Úganda og Kenía eru mun stærri og ná yfir miklu fleiri í lengri tíma.

Í Bandaríkjunum hafa Barack Obama og Hillary Clinton bæði lýst yfir áhuga sínum á borgaralaunum. Í júní á seinasta ári í Hawaí var samþykkt frumvarp ríkisfulltrúans Chris Lee þess efnis að borgaralaun yrðu skoðuð sem hluti af stærri umræðu um framtíð ríkisins. Þremur mánuðum síðar lýsti borgarstjóri Stockton í Kaliforníu yfir áætlunum sínum um að hefja tilraun með borgaralaun í Stockton. Einnig hafa háværar raddir heyrst úr Kísildalnum vestan hafs og hafa einstaklingar á borð við Elon Musk, Mark Zuckerberg og Sam Altman komið fram og talað um mikilvægi þess að skilyrðislaus grunnframfærsla verði skoðuð sem raunverulegur valkostur fyrir framtíð þar sem mikið af þeim störfum sem við þekkjum í dag verði sjálfvirknivædd. Sam Altman hefur gengið svo langt að fjármagna í gegnum fyrirtæki sitt, Y Combinator, frumrannsókn á borgaralaunum í Oakland í Kaliforníu sem upphitun fyrir stærri rannsókn sem á að hefjast á þessu ári.

Eins og frægt er orðið hefur skýrsla sem gefin var út af Carl Benedikt Frey og Michael Osborne hjá Oxford-háskólanum leitt í ljós að 47% starfa í Bandaríkjunum eiga á hættu að verða sjálfvirknivædd á næstu tveimur áratugum. Í fátækari löndum á borð við Indland er þessi tala mun hærri eða 69% og allt upp í 77% í Kína. Í skýrslu frá World Economic Forum eru færð rök fyrir því að ný atvinnutækifæri muni spretta upp og mynda ákveðið jafnvægi vegna tapsins en það muni samt hafa þau áhrif að áætlað heildartap starfa fyrir árið 2020 verði yfir fimm milljón störf í 15 helstu þróuðu og vaxandi hagkerfum heims. Katja Grace hjá Future of Humanity Institute í Oxford-háskóla leiddi skýrslu, þ.e. rannsókn sem spurði sérfræðinga fremsta á sviði gervigreindar í heiminum hvenær þeir teldu að vélar þróuðu með sér yfirburði fram yfir menn á hinum ýmsu sviðum. Sérfræðingar í Norður-Ameríku áætluðu að það myndi gerast eftir 74 ár en kollegar þeirra í Asíu sjá það gerast eftir einungis 30 ár.

Hvernig sem á það er litið og áður en langt er um liðið mun gervigreind taka fram úr fólki á flestum ef ekki öllum sviðum. McKinsey-stofnunin gaf út skýrslu í seinasta mánuði þar sem þeir áætla vinnutap sem fylgir sjálfvirknivæðingunni. Þar kemur einnig fram að mjög líklega muni ný störf taka við af þeim gömlu, en lögð er áhersla á þörfina fyrir aukinn fjárhagslegan stuðning á þessu breytingarskeiði vinnumarkaðarins. Fólk mun þurfa á þessari aðstoð að halda. Ekki bara til að bæta upp tapaðar tekjur vegna vinnutaps, heldur einnig sem viðbót við tekjur þeirra sem hafa vinnu þar sem lág laun eru þekkt og fyrirsjáanleg hliðarverkun þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað í hagkerfi okkar.

McKinsey-stofnunin sér borgaralaun mæta þessum þörfum og bendir sérstaklega á að þær tilraunir sem hafa verið gerðar með skilyrðislausa grunnframfærslu í Kanada og Indlandi sýndu enga verulega minnkun á vinnutíma fólks en verulega aukningu lífsgæða, heilsufars, foreldraorlofs, frumkvöðlastarfs, menntunar og valdeflingar kvenna.

Adam Smith-stofnunin, sem er hugveita eða þankatankur frjálshyggjumanna, hefur nýverið gefið út skýrslu sem nefnist Skilyrðislaus grunnframfærsla víðs vegar um heim: Óvæntu kostirnir við skilyrðislausar lausafjártilfærslur. Eða „cash transfers“ eins og það heitir á ensku. Er þar eindregið mælt með því að borgaralaun verði skoðuð og fleiri tilraunir gerðar.

Í kjölfar skýrslunnar sagði Otto Lehto, höfundur hennar, með leyfi forseta:

„Skilyrðislaus grunnframfærsla gerir veitingu velferðarþjónustu mun einfaldari og eykur sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga. Að leyfa efnaminni og fátækum borgurum að ráðstafa fjármunum sínum eins og þeir telja best dregur úr óþarfri afskiptasemi stjórnvalda og eflir sjálfstæðar markaðslausnir.“

Flest öll velferðarkerfi þróaðra ríkja eru flókin, þung í vöfum og frek á starfsfólk innan hins opinbera. Þrátt fyrir að vera eina lífæð fjölmargra notenda er upplifun fólks af velferðarkerfum hins vestræna heims undantekningarlítið neikvæð. Með upptöku skilyrðislausrar grunnframfærslu gefst tækifæri til að draga úr afskiptum ríkisins af örlögum þegna sinna, draga úr stjórnsýslukostnaði til muna og fækka opinberum starfsmönnum. Þessir starfsmenn myndu svo hafa í krafti skilyrðislausrar grunnframfærslu tækifæri til að vaxa og dafna í öðrum störfum. Upplifun þeirra sem reiða sig á velferðarkerfið mun að öllum líkindum verða mun jákvæðari, enda afskipti ríkisvaldsins af örlögum þegna sinna með minnsta móti. Á sama tíma er ríkisvaldið að uppfylla þá frumskyldu sína að tryggja borgurum lágmarksvelferð og gott betur.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins. Meðal annars voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar við lok 145. löggjafarþings. Er það von flutningsmanna að niðurstöður af þeirri vinnu sem hér er lögð til geti orðið til þess að opna og þróa umræðu um framtíð almannatryggingakerfisins. Hugmyndin sem hér er kynnt er róttæk en flutningsmenn árétta að með henni er þó ekki lagt til að þegar verði tekin upp skilyrðislaus grunnframfærsla, heldur að unnin verði fagleg greiningarvinna til að koma með tillögur að útfærslu slíkrar framfærslu sem gæti orðið dýrmætt innlegg í þá umræðu sem staðið hefur yfir síðustu ár. Mikilvægt er að opna umræðuna og koma með nýja sýn á hugmyndir um framfærslu og framfærslukerfi og þá sérstaklega í ljósi þeirra stórkostlegu breytinga sem við sem samfélag horfum fram á á komandi árum.

Borgaralaun eru ekki einungis hugsuð sem viðbrögð við tækniframförum heldur fyrst og fremst sem vopn í baráttunni gegn fátækt og fylgikvillum hennar. Þegar fólk hefur gólf til að standa á fremur en þak sem það bugast undir skapast frelsi til að taka ákvarðanir sem eru ekki byggðar á neyð, þ.e. það sem fólk neyðist til að gera til að ná endum saman, heldur löngun fólks til að lifa innihaldsríku lífi og þannig tengja sig við innri tilgang, upplifa sig sem hluthafa í samfélaginu. Fylgikvillar fátæktar eru margvíslegir og alvarlegir. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á lífi og aðstæðum fátækra sýna mjög greinilega hversu alvarlegar afleiðingar fátæktar eru fyrir samfélagið í heild.

Líf fátækra einkennist af miklu andlegu álagi, vanlíðan og niðurlægingu sem leiðir til skertrar sjálfsvirðingar, sorgar, kvíða og niðurbrots á andlegu og líkamlegu heilsufari. Fátækt stuðlar að því að einstaklingar, og þar á meðal börn, heltast úr samfélagslestinni, glata samkeppnisfærni og njóta þar af leiðandi ekki þeirra tækifæra og gæða sem teljast sjálfsögð og eðlileg í samfélaginu.

Baráttan gegn fátækt á Íslandi snýst ekki einungis um að bæta hag lítils og afmarkaðs hóps fólks í samfélaginu heldur um grundvallarmannréttindi, jafnrétti, mannvirðingu og lýðræðisumbætur sem myndu betrumbæta samfélagið fyrir alla. Baráttan snýst um það raunverulega frelsi sem fæst með eflingu efnahagslegra og félagslegra réttinda, aukið sjálfstæði sem vinnst þegar miðstýring ríkisstjórnar er minnkuð og eflingu friðhelgis einkalífs þegar eftirlitið verður óþarft. Þung og flókin kerfi eins og við búum við núna hafa mjög alvarleg og neikvæð áhrif á lýðræðisríki þar sem þau hefta aðgang fólks að nauðsynlegum upplýsingum um réttindi sín til að það geti verið virkir þátttakendur í lýðræðinu. Án gagnsæis og greiðs aðgangs að upplýsingum er lýðræði einungis sýndarleikur fyrir þá sem ekki kunna að greiða úr flækjum kerfisins.

Heimurinn er að þróast og við höfum ekki efni á því að spyrna á móti þeirri þróun til lengdar. Það sem ákvarðar hvort viss þróun sé neikvæð eða jákvæð fyrir samfélag er geta okkar til að sjá hvert við stefnum og horfast í augu við óhjákvæmilega þróun og undirbúa okkur. Í sögu Íslands eru fjölmörg dæmi þess að Íslendingar hafi aðlagað sig að breyttum lifnaðarháttum með undraverðum hraða. Hér á landi eru öll skilyrði til alvarlegrar athugunar á fýsileika skilyrðislausrar grunnframfærslu til fyrirmyndar. Vel afmarkað samfélag með sterka innviði, nokkuð fjölbreytt atvinnulíf, hvorki of fjölmennt né of fámennt, hátt menntunarstig og mikil atvinnuþátttaka. Íslendingar geta hæglega orðið brautryðjendur þeirrar vegferðar sem fjölmargir fræðimenn, bæði frjálshyggjunnar og félagshyggjunnar, eru sammála um að sé óumflýjanleg á næstu áratugum.

Það er einlæg von mín að þessi þingsályktun fái góðar undirtektir og að við hefjum þá vegferð að skoða fýsileika borgaralauna sem hluta af stærri umræðu um framtíð framfærslu og hagkerfis okkar Íslendinga. Ég hlakka til að taka þingmálið til velferðarnefndar og fjalla um það þar.