148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það rann upp fyrir mér þegar ég hlustaði á hv. þingmann mæla fyrir þessu máli að mögulega hefði verið valið rangt nafn á það. Hér erum við að tala um tillögu til þingsályktunar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, en þingmaðurinn talaði ítrekað um leiðréttingu. Leiðréttingu á kjörum stétta sem haldið hafi verið niðri af kerfinu. Þannig að ég ætla að lesa bætt kjör sem leiðrétt kjör kvennastétta svona hjartans vegna því að það er inntakið.

Við erum að leiðrétta skekkju sem viðgengist hefur allt of lengi. Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem við stöndum í þessari pontu, ég og hv. þingmaður, og ræðum baráttuna gegn kynbundnum launamun. Við vorum hér fyrir tæpu ári að ræða jafnlaunavottun, sem er annað skref í átt til útrýmingar kynbundins launamunar. Það þarf að stíga mörg skref á þeirri leið og þau taka kannski óþarflega langan tíma, finnst manni stundum, og taka á of litlum hluta vandans eða hvað það er. En allt þarf þetta að gerast.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að í sínu fyrra hlutverki sem ráðherra jafnréttismála býst ég við að hann hafi öðlast dálitla innsýn inn í kerfið. Gerir hv. þingmaður sér einhverja hugmynd um hversu langan tíma þarf til að gera þá greiningu sem hér er lagt til að fara í? Hann nefnir að hér verði einhverjar nokkuð umfangsmiklar aðgerðir sem ráðast þurfi í í framhaldinu. Hefur hann einhverja hugmynd um hvert umfangið er í tíma og á öðrum skala?