148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, hann vísar til jafnréttislaga í þessu samhengi, að það er skylt að greiða sömu laun fyrir jafn verðmæt störf óháð kyni. Vandi okkar í því samhengi og í þeim málum sem reynt hefur á hvað þessa grein varðar er að samanburðurinn um hvað eru jafn verðmæt störf er gríðarlega erfiður. Það liggur ekki til grundvallar neitt heildstætt verðmætamat á störfum á vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera. Það er því mjög erfitt fyrir einstaklinga að sækja rétt sinn telji þeir á sér brotið, nema þeir geti vísað til — t.d. ef kona sækir mál gegn ríkinu þarf hún að geta vísað til karls sem er með svipaðan starfsaldur, sömu menntun, og gegnir nákvæmlega sama starfi og hún til þess að geta sýnt fram á mögulegt óréttlæti í þessu samhengi.

Það er auðvitað partur af þessari vinnu. Jafnlaunavottunin breytir þeirri hugsun svolítið og gerir þá kröfu á vinnuveitendur að þeir verðmeti störfin, jafnvel þó að þau kunni að sýnast ólík við fyrstu sýn séu þau jafn verðmæt. Það er partur af þeirri hugsun sem við þurfum að ráðast í þessu samhengi.