148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðuna og flutningsmönnum fyrir þessa ágætu þingsályktunartillögu sem mér finnst allrar athygli verð.

Ég geri ráð fyrir, eins og hv. þingmaður talaði um, að hér ríki mikil sátt um hvort sem er að bæta eða leiðrétta kjör í kvennastéttum. Ég geri ráð fyrir að það ríki kannski ágætissátt um það í samfélaginu. En mig langar að spyrja hv. þingmann því að hann hefur öllu meiri reynslu af kjarasamningaviðræðum en ég, hvort hann hafi líka raunverulega trú á því að hægt sé að fylgja slíku eftir. Þess vegna verð ég líka að segja fyrir mitt leyti að ég er spennt að sjá hvers konar umsagnir þingsályktunartillagan kynni að fá frá umsagnaraðilum. Mér finnst oft í umræðunni við eiga auðveldara með að fara með falleg orð um það hvað fólk vill, það vilja jú allir jafnrétti kynjanna og jöfn laun, en svo einhvern veginn þegar á hólminn er komið þá virðist það vera öllu erfiðara.

Ég heyrði að hv. þingmaður kom aðeins inn á kjarasamninga og ég hef stundum hreinlega velt fyrir mér hvort kjarasamningafyrirkomulagið sé einhvern veginn þannig að verið sé raunverulega að greiða fólki í samræmi við kjarasamninga, að það sé vandamálið og það sé kannski það sem hafi haldið konum niðri í launum. Því að samkvæmt þeim könnunum sem við sjáum er það nú yfirleitt þannig að ef karlar eru hærri í launum þá er það oft út af einhverju öðru en taxtanum, ekki eins og það sé samið þannig, heldur eru þetta einhverjar aukasporslur, yfirvinna eða þess háttar sem hækkar annað kynið umfram hitt í launum. Því veltir maður fyrir sér: Er þetta kjarasamningafyrirkomulag okkar bara búið?