148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

framtíðarskipulag LÍN.

[10:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég hef verið hugsi yfir stöðu stúdenta upp á síðkastið og tekið nokkur samtöl við þá út af ýmsum málum, m.a. sálfræðiþjónustu í háskólum, þingsályktunartillögu sem Viðreisn og fleiri þingmenn, þvert á flokka, munu leggja fram og vonandi fá tækifæri til að ræða. En ég hef sérstaklega orðið vör við mikla óþreyju á meðal stúdenta eftir því að niðurstaða fáist í lánasjóðsmálin.

Stúdentar hafa beðið í allnokkurn tíma, eiginlega nokkuð mikið langan tíma, eftir kjarabótum og að tekin sé ákvörðun um raunverulegt framtíðarskipulag á lánasjóðnum. Það hafa verið þrjár endurskoðunarnefndir í gangi og sú fjórða er á leiðinni. Fyrir liggja tvö ólík frumvörp, sem við ræddum svolítið í kosningabaráttunni. Annars vegar er það frumvarpið sem kom frá Sjálfstæðisflokknum, Illuga Gunnarssyni, þáverandi menntamálaráðherra, og síðan ráðherranum á undan honum sem er núna forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. Þetta eru nokkuð ólík frumvörp en ýmislegt er hægt að nýta úr þeim.

Nú boðar hæstv. ráðherra menntamála enn eina útgáfu af kerfinu. Allan tímann sitja stúdentarnir sjálfir á hakanum. Sumir þeirra sem voru að hefja nám þegar endurskoðunarvinnan hófst eru jafnvel að ljúka doktorsprófi í dag, þetta langur er tíminn.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Eftir hverju er nú verið að bíða? Hvers vegna er ekki búið að skipa nýjan starfshóp og slá tóninn um þær breytingar sem ráðherra áformar? Hvers vegna er ekki enn búið að skipa í stjórn LÍN sem á að samþykkja nýjar úthlutunarreglur fyrir 1. apríl næstkomandi?

Auðsýnt er að mínu mati að þetta þarf að gera hið snarasta. Stúdentar þurfa skýr svör. Þeir geta ekki beðið lengur og eiga skilið betri kjör og ekki síst að óvissu í umhverfi þeirra sé eytt.