148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

framtíðarskipulag LÍN.

[10:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg rétt að endurskoðunin hefur tekið allt of langan tíma. Menn hafa ekki náð að klára að endurskoða lög um lánasjóðinn í að verða átta ár. Ástæða þess að ekki er búið að skipa í stjórnina er sú að sá ráðherra sem hér stendur ætlar að vanda sérstaklega til verka. Samspil á milli þeirra sem fara í stjórn og í verkefnisstjórnina þarf að vera mjög gott. Ég er að leita að ákveðnum eiginleikum viðkomandi aðila, bæði er varðar hugsun þeirra, samfélagslega ábyrgð, fjármálakunnáttu og svo lögfræðikunnáttu sem þarf að koma þarna inn. Verkefnisstjórnin og stjórnin þurfa að vinna mjög vel saman.

Ég er alveg sammála því að það er búið að taka allt of langan tíma. Ég er að vinna með allsherjar- og menntamálanefnd að skipulagi þeirrar vinnu. Þar verður haft náið samstarf. En ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þessi ráðherra verði aðgerðalaus hvað það varðar. Ég hlakka líka til að vinna með hv. þingmanni að framgangi þessara mála.

Ég vil líka segja að ég er mjög ánægð með þá þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður boðar. Hún er í anda stjórnarsáttmálans. Við viljum bæta sálfræðiþjónustu, ekki bara á háskólastigi, heldur líka á framhaldsskólastigi. Það má upplýsa hér að ég og hæstv. heilbrigðisráðherra funduðum um það mál í gær þar sem við ætlum að vinna saman að framgangi þessara mála, heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið, og skoða hvernig við getum gert þá þjónustu mun skilvirkari og aðgengilegri. Það eru mjög góð mál í bígerð. Ég hlakka til að hrinda þeim í framkvæmd.